152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[19:14]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir spjallið. Þetta orðalag hringir sannarlega viðvörunarbjöllum og virðist ekki gert ráð fyrir því að fólk hafi einhvern kost á því að hafna vinnslu persónuupplýsinga að hluta eða í heild til þess að geta þegið þá þjónustu sem það þarf á að halda. Mér finnst þetta vera hluti af því áhyggjuefni sem ég nefndi í ræðu minni sem er að þörf fólks fyrir aðstoð gerir að verkum að við göngum of langt á sjálfstæði þess, sjálfsákvörðunarrétt og ábyrgð á eigin lífi. Ég ímynda mér að skortur á upplýsingum um hagi fólks hafi áhrif á getu þjónustuveitanda til að veita þá þjónustu. En það bitnar þá væntanlega á þeim einstaklingi. Þarna þarf að nást eitthvert jafnvægi, á milli þess að fólki sé veitt sú þjónusta sem það þarf á að halda að mati starfsmanns Fjölmenningarseturs eða að eigin mati, að mati einstaklingsins sjálfs, og spurning hvort það sé ekki of mikil forræðishyggja fólgin í þessu líka, þessari ríku heimild, þeim ríka rétti stjórnvalda til að afla allra viðkvæmustu persónuupplýsinga um einstaklinga til þess að geta hjálpað þeim. Ég endurtek að þetta hringir viðvörunarbjöllum fyrir mér og ég hvet velferðarnefnd til að skoða þetta vandlega. Það kom mér pínulítið á óvart að það skyldi ekki koma harðorðari athugasemdir frá Persónuvernd hvað þetta varðar en ég tel fullt tilefni til þess að fara varlega þarna og hafa þetta í huga.