152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Enn á ný nota ég aðstöðu mína hér til að minna á unga fólkið í heimsfaraldri. Eftir að tilkynnt var um afléttingar í síðustu viku heyrðust háværar óánægjuraddir frá framhaldsskólanemum. Forseti nemendafélagsins Framtíðarinnar í MR sagði nemendum vera illa brugðið vegna nýrra reglna um 50 manna samkomutakmarkanir. Það sé ljóst að mikilvægir hagsmunir nemenda af almennilegu félagslífi hafi ekki verið stjórnvöldum ofarlega í huga. Og ég ætla hér að taka undir með þeim. Takk fyrir að halda okkur við efnið.

Ákvarðanir um skemmtanahald hafa sannarlega ekki verið teknar með unga fólkið í huga nema ef vera skyldi til þess að koma sérstaklega í veg fyrir það. Ýmissa leiða hefur hins vegar verið leitað til þess að ákveðnir menningarviðburðir leggist ekki af: Skemmtanalíf eldri kynslóðanna. Eru tvö ár af menntaskólaböllum kannski bara lítil fórn að færa? Tvö ár af því að bera grímur í tímum og eiga í takmörkuðum samskiptum og samveru við samnemendur? Það finnst mér ekki. Og þeir sem halda öðru fram ættu að velta því fyrir sér hvort tilvera þeirra grundvallist kannski á því að forfeður þeirra gátu á sínum tíma skemmt sér almennilega á böllum.