152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Sjúkratryggingar og ríkið af kröfu konu sem krafðist þess að fá greitt 1.200 þús. kr. með dráttarvöxtum auk málskostnaðar fyrir það eitt að fara í aðgerð hjá Klíníkinni í Ármúla. Hún má fara í þrisvar sinnum dýrari aðgerð erlendis en komst ekki vegna Covid-19. Lögmaður hennar segir þetta brot á mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Í Morgunblaðinu í morgun kemur einnig fram að Sjúkratryggingar samþykktu að konan mætti leita sér meðferðar innan EES-svæðisins en ekki hjá Klíníkinni í Ármúla vegna samningsleysis um greiðsluþátttöku í meðferð hjá þeim. Þá er bent á að íbúar annarra landa Evrópska efnahagssvæðisins virðast njóta betri réttar hér á landi en íslenskir ríkisborgarar. Þeir geta komið hingað og farið í aðgerð á Klíníkinni og fengið hana greidda hjá sínum opinberu sjúkratryggingum en ekki íslenskir ríkisborgarar. Þau hjá Klíníkinni eru nógu góð til að laga og hjálpa til á Landspítalanum vegna Covid-19, og það með samþykki ríkisstjórnarinnar, en þau eru ekki boðleg til að binda enda á fjárhagslegar, andlegar og líkamlegar pyndingar hjá þjáðu og illa veiku fólki. Nei, eina sem er í boði hjá ríkisstjórninni er að þetta fólk bryðji rótsterk verkjalyf, þ.e. ópíóíða sem gera það jafnvel að fíklum eða öryrkjum fyrir lífstíð. Að bryðja 15–20 töflur á dag á biðlista eftir aðgerðum svo mánuðum eða árum skiptir og þar af tvær til þrjár töflur vegna aukaverkana af verkjalyfjum er ofbeldi af verstu gerð. Verkjafangelsisofbeldið á biðlista þekki ég af eigin raun, sem er ótrúlega grimmileg refsing fyrir það eitt að slasast eða bara veikjast, og hvað þá ef fólk er með fjölskyldur og börn. Og fólk sem er í fullri vinnu er að detta út af vinnumarkaðnum. Mannréttindi, jafnrétti og jafnræði eru fótumtroðin í þessu máli og ríkisstjórninni ber að stöðva þetta ofbeldi strax.