152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þeim fréttum að kynningarfundur um fyrirhugað útboð í samvinnuverkefninu Axarvegur – nýr vegur yfir Öxi verði haldinn á föstudaginn. Það er með ólíkindum hve málið hefur dregist þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir sveitarstjórnar og heimastjórnar í Múlaþingi. Annað og verra mál er svo að á þeim langa tíma sem tekið hefur að koma útboðinu af stað og þeim langa tíma sem mun taka að klára verkið sjálft hefur vetrarþjónustu ekki verið sinnt sem skyldi. Axarvegur fellur undir svokallaða G-reglu sem felur í sér, með leyfi forseta, að heimilt sé að moka tvo daga í viku haust og vor á meðan snjólétt er. Ástandið er skilgreint snjólétt þegar um er að ræða lítið snjómagn og færðarástand telst hvergi ófært, þungfært eða þæfingur á viðkomandi leið og þegar þjónustuaðgerðin felst eingöngu í hreinsun akbrautar með snjómokstursbíl. Drónaflug og ferðir bænda í fjárleitum hafa margoft sýnt fram á að augljóst er að oft og tíðum er galið að leiðinni sé ekki haldið opinni. Um er að ræða leið innan sveitarfélags þar sem íbúar þurfa að sækja þjónustu og verslun á milli íbúðakjarna. Íbúum á Djúpavogi er gert að aka um annað sveitarfélag og lengja ferðina um tugi kílómetra. Þetta er öryggismál. Þetta er jafnréttismál. Þetta er óboðlegt, frú forseti, og ljóst er að bregðast verður við því strax.