152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Í Fréttablaðinu í dag má lesa opið bréf til hæstv. dómsmálaráðherra frá 13 samtökum sem berjast fyrir mannréttindum og réttindum kvenna. Þar er skorað á ráðherrann að bæta stöðu þolenda kynferðisofbeldis í réttarkerfinu með því að veita þeim aðild að dómsmálum sem nú eru sótt af ríkinu fyrir þeirra hönd. Þolendum er nefnilega úthýst úr dómsal í eigin réttarhöldum.

Í bréfinu segir, með leyfi forseta:

„Rannsóknir sýna að andlegar afleiðingar kynferðisofbeldis eru yfirleitt mun langvinnari en líkamlegir áverkar, sem gróa oftast fljótt. Þar vegur afmennskunin og hlutgervingin þungt, en til að beita kynferðisofbeldi þarf gerandinn að smætta þolandann niður í viðfang til að svala fýsnum sínum á, í stað manneskju með réttindi og rödd.

Færa má rök fyrir því að með núverandi lögum haldi réttarkerfið áfram þessari afmennskun og hlutgervingu, þar sem brotaþoli hefur hvorki sömu réttindi né rödd og sakborningur í eigin máli. [...]

Þannig getur réttarkerfið viðhaldið því valdaójafnvægi milli sakborningsins og brotaþolans sem ofbeldið sjálft fól í sér. Það er ekki að ástæðulausu sem dómsmál eitt og sér getur valdið áfallastreitu hjá brotaþolum, eða dýpkað þá andlegu áverka sem fyrir eru.“

Frú forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að taka undir hvert orð í þessu bréfi og einnig nota tækifærið til að minna hæstv. forseta á að hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til dómsmálaráðherra um réttarstöðu þolenda sem vonandi verður svarað von bráðar. Komi frumkvæðið ekki úr dómsmálaráðuneytinu, frú forseti, verður þingheimur að taka höndum saman um að bæta hér úr og ég skora á þingmenn að gera það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)