152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

251. mál
[19:15]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða segir:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Þetta frumvarp gerir aðallega efnislegar breytingar á 6. gr. a og 24. gr. laganna. 6. gr. a skuli orðast svo:

„Heimilt er að stunda handfæraveiðar við Ísland samkvæmt skilyrðum þessarar greinar. Í lögum þessum eru slíkar veiðar nefndar strandveiðar. Afli sem fæst við strandveiðar reiknast ekki til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra skipa er þær veiðar stunda.

Einungis er heimilt að hefja strandveiðar að undangenginni skráningu fiskiskips hjá Fiskistofu. Fiskistofu er aðeins heimilt að skrá fiskiskip til strandveiða sem fullnægja ákvæðum 5. gr. og einungis er heimilt að skrá á hverja útgerð, eiganda, einstakling eða lögaðila, eitt fiskiskip til strandveiða. Eigandi fiskiskips skal vera lögskráður á skipið. Eftir skráningu til strandveiða er skipum óheimilt að flytja frá sér aflamark þess árs umfram það sem flutt hefur verið til skipsins.

Skráning til strandveiða samkvæmt þessari grein er bundin eftirfarandi skilyrðum:

1. Tilkynna skal Fiskistofu um sjósókn fiskiskipsins í samræmi við reglur sem ráðherra setur með reglugerð.

2. Aldrei er heimilt að hafa fleiri en fjórar handfærarúllur um borð í fiskiskipi. Engin önnur veiðarfæri en handfærarúllur skulu vera um borð.

3. Skylt er að landa öllum afla í lok hverrar veiðiferðar og skal hann veginn og skráður endanlega hér á landi. Um vigtun, skráningu og meðferð afla fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og ákvæðum gildandi reglugerðar þar um.

Beita skal ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.“

Síðan skuli 24. gr. orðast svo:

„Fiskistofa skal veita áminningar og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni eða leyfi til öflunar sjávargróðurs, eða eftir atvikum áminna eða banna veiðar skipa sem skráð eru til strandveiða, fyrir brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Ef veiðitímabili er lokið áður en ákvörðun Fiskistofu um sviptingu veiðileyfis tekur gildi, eða veiðitímabili lýkur áður en gildistíma sviptingar lýkur, skal leyfissvipting samkvæmt ákvörðuninni gilda við útgáfu næsta veiðileyfis, eða eftir atvikum á næsta fiskveiðiári. Ákvörðunum Fiskistofu um áminningar og veiðileyfissviptingar verður skotið til ráðuneytisins, enda sé það gert innan eins mánaðar frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.“

Þetta mál er nú endurflutt enn og aftur. Markmið þess er að handfæraveiðar við Íslandsstrendur verði gefnar frjálsar til að bæta aðstæður til strandveiða og taka tillit til efnahagslegra sjónarmiða sem og umhverfisþátta. Einnig er litið til fiskveiðistjórnar og öryggismála sjómanna. Eins og í gildandi lögum eru þessar veiðar kallaðar strandveiðar.

Strandveiðar eru umhverfisvænar og fara vel með hafsbotninn. Þær veita einstaklingum um allt land atvinnutækifæri og styrkja byggðir landsins. Núverandi fyrirkomulag er þó óþarflega íþyngjandi og mismunar landsvæðum. Þetta hamlar vexti greinarinnar og kemur í veg fyrir að strandveiðar dafni sem skyldi. Það er miður því að strandveiðarnar hafa sannað gildi sitt fyrir atvinnulíf í byggðum landsins sem sjálfbærar, vistvænar veiðar sem glætt hafa byggðir landsins lífi og stuðlað að jákvæðri samfélagsþróun.

Frá upphafi hefur sérstaklega gætt óánægju með áhrifin af svæðaskiptingu strandveiðanna og því að jafnræðisreglan sé ekki nægilega vel í heiðri höfð við framkvæmd veiðanna. Núverandi útfærsla strandveiðikerfisins og notkun svæða og aflamarks skapar þrýsting á strandveiðimenn til að veiða í öllum veðrum og varað hefur verið við hættunni sem af því hlýst.

Fyrirkomulagi strandveiða hefur verið breytt í gegnum árin í því skyni að koma til móts við þessar óánægjuraddir en að mati flutningsmanns hefur markmiðum um öruggar veiðar og jafnræði ekki enn verið náð.

Með frjálsum strandveiðum er íþyngjandi regluverki aflétt af greininni, jafnræði allra er tryggt, þrýstingi til þess að fara til veiða í vályndum veðrum aflétt og lagður grundvöllur að blómlegum smáútgerðum til frambúðar.

Í 6. gr. a gildandi laga eru lagðar miklar takmarkanir á fiskiskip og útgerðir þegar kemur að veiðum. Í fyrsta lagi þarf leyfi frá Fiskistofu til að stunda strandveiðar og aðeins innan þess aflamagns sem ráðherra ákveður. Miðunum er svo skipt upp í fjögur landsvæði sem deila með sér aflamagninu og getur Fiskistofa stöðvað veiðar þegar því aflamarki er náð. Skipin, og löndun úr þeim, eru þar að auki bundin við eitt landsvæði á hverju fiskveiðiári og er skráning skipa bundin við það landsvæði þar sem heimilisfesti útgerðar er.

Strandveiðar eru samkvæmt gildandi lögum bannaðar á föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Hver veiðiferð má ekki standa lengur en í 14 klukkustundir, tilkynna þarf um sjósókn og aðeins má hafa fjórar handfærarúllur um borð. Jafnframt er hver veiðiferð skips bundin við 650 kg af kvótabundnum tegundum.

Ákvæðum frumvarps þessa er ætlað að einfalda þessar reglur verulega, án þess að slíkt hafi áhrif á öryggi sjómanna eða neikvæð áhrif á nytjastofna. Í fyrsta lagi eru strandveiðar gefnar frjálsar að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Regluverkið er einfaldað og fallið frá skiptingu landsvæða. Takmörkun við fjórar handfærarúllur á hvert skip mun takmarka stærð skipa og aflamagn á hverju fiskveiðiári.

Fallið er frá takmörkunum á aflamagni sem og hvenær árs veiðar mega fara fram. Í ljósi þess að heildarafli strandveiða hefur frá árinu 2009 að jafnaði verið 2–4% af heildarafla alls íslenska flotans innan hvers fiskveiðiárs er ekki talið að frjálsar strandveiðar hafi teljandi áhrif á stofnstærð fisktegunda við strendur Íslands.

Til viðbótar við það má geta þess að í núverandi kvótakerfi hefur verið farið fram yfir ráðleggingar Hafró. Vandamálið er til staðar í núverandi kvótakerfi stórútgerðarinnar, ekki í strandveiðum. Það er verið að skera niður það aflamark núna um 1.500 tonn. Umframveiði á undanförnum árum, 2017 og 2018, var 15.000 tonn, tífalt meira en verið er að skera niður núna til strandveiða, 12.000 tonn 2015/2016, 7.000, 12.000, 17.000, alltaf einhvers staðar í kringum 10.000 tonn eða svo sem veitt hefur verið umfram ráðleggingar Hafró. Það er mjög áhugavert.

Takmarkanir á strandveiðum verða mun minni með þessu frumvarpi en í gildandi lögum. Tilkynningarskylda til Fiskistofu helst óbreytt og aðeins verða fjórar handfærarúllur leyfðar um borð í hverju skipi. Ákvæði um hámarksafla í hverri veiðiferð og lengd veiðiferða eru felld úr gildi, sem og ákvæði þess efnis að strandveiðar séu aðeins heimilar frá 1. maí til 31. ágúst. Helst það ákvæði í hendur við að takmarka ekki heildarafla yfir árið. Sjómenn munu, ef frumvarpið verður samþykkt, ekki þurfa að keppast við að ná í sinn hlut í öllum veðrum. Er talið að aflétting þessara takmarkana muni draga úr hvatanum til að sigla út í tvísýnum veðrum og auka þannig öryggi sjómanna.

Það er áhugavert að skoða þróunina á strandveiðikerfinu á undanförnum árum. Árið 2020 var kvótinn þar rúm 10.000 tonn, 10.753 og hafði farið stigvaxandi frá 2010 þegar kerfið var sett á, var þá 5.000 tonn. Hann hefur farið minnkandi og er kominn núna niður í 8.500 tonn samkvæmt ákvörðun ráðherra, sem er u.þ.b. það sama og var 2016. Þetta er gríðarleg skerðing og von ráðherra um að þetta lagist þegar einhver skiptamarkaður fer í gang er mjög skrýtin, myndi maður segja. Ef forgangsröðunin væri rétt þá væri byrjað þarna, á byggðakvótanum, á strandveiðikvótanum, og það yrði í rauninni fyrsti forgangur. Afganginn væri síðan hægt að setja í stórútgerðina ef fólk vill endilega hafa það sem veiðist í strandveiðum innan þess hluta. En þetta frumvarp gerir ekki ráð fyrir því, enda eru strandveiðar að mati flutningsmanna og þeirra sem eru reyndir í þessum fræðum, sjálfbærar, þeir bíta einfaldlega sem eru svangir og það er þá ákveðin grisjun í gangi frekar en möguleiki á ofveiði.

Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar, sem kom út á síðasta ári, er fjallað um að það séu tvenns konar þorsktegundir við Íslandsstrendur, grunnfarsþorskur og djúpsfarsþorskur. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hér hefur lítið verið fjallað um stofngerðarbreytileika sem býr í íslenska þorskstofninum og gæti verið lykilatriði varðandi umhverfistengdar stofnsveiflur og þol stofnsins gagnvart umhverfisbreytingum. Hrygningarsvæði finnast allt í kringum landið og sum ár getur framlag minni hrygningarsvæða verið töluvert sem líklega skýrir stöðugleika í nýliðun íslenska þorskstofnsins. Auk aðskilinna hrygningarsvæða hefur þorskur við Ísland verið aðgreindur í tvo hópa; grunnfarsþorsk og djúpfarsþorsk, sem sýna ólíkt atferli og útbreiðslu á fæðuöflunartíma. Sýnt hefur verið fram á að arfgerðin Pan I AA einkennir grunnfarsþorsk sem heldur sig á grunnslóð árið um kring“ — þetta er það sem strandveiðarnar eru að veiða — „en arfgerðin Pan I BB einkennir djúpfarsþorsk sem leitar í dýpri sjó og hitaskil til fæðuöflunar. Um og yfir helmingur íslensks hrygningarþorsks er þó arfblendinn með tilliti til Pan-gensins (Pan I AB) og sýnir sá hópur fjölbreytilegri fæðugöngur (bæði djúpt og grunnt) en arfhreinir fiskar. Bent hefur verið á að hátt hlutfall arfblendinna fiska gæti því verið hagstætt í sveiflukenndu umhverfi þorsksins.“

Þetta er eitthvað sem þarf að taka tillit til þegar verið er að skoða, og við erum hér bara að tala um þorskinn, aflamark, kvóta fyrir þorsk sem er með mismunandi dreifingu. Þetta er ekki sami stofn sem verið er að veiða úr en samt er allt sett í sama pott. Það mætti meira að segja taka í rauninni kvótann sem stórútgerðin er með, togararnir og svoleiðis og segja að það sé alveg sér, það sé í öðrum stofni, og ýta þeim út fyrir 12 mílur a.m.k. Ef þið ætla að veiða eitthvað sem er í þessum kvóta þá farið þið út fyrir 12 mílur áður en þið einu sinni byrjið. Svo þarf að huga að ýmsu varðandi umhverfisáhrif togsins og kannski bara losa okkur alveg við það.

Þetta er ekki flókið frumvarp þegar allt kemur til alls. Síðasta atriðið sem ég myndi vilja nefna er veiðigjaldið, svona til hliðar við þetta. Það er alltaf stóra spurningin, hvað við fáum fyrir aflann og auðlindina okkar. Ég gerði það á síðasta kjörtímabili að ég spurði einfaldlega: Hver hefur kostnaður ríkisins verið við að reka hinar ýmsu stofnanir sem sjá um umsjón og eftirlit með sjávarútvegsauðlindinni okkar? Þar er Hafrannsóknastofnun, Matís, Fiskistofa, Verðlagsstofa skiptaverðs, það er ákveðin alþjóðasamvinna, það er skrifstofa fiskveiðistjórnunar, það er MAST og Landhelgisgæslan. Samanlagt eru þetta um 5–6 milljarðar kr., jafnvel rúmlega 6 milljarðar, 6,5 milljarðar árið 2020. Og árið 2020 fáum við 4,8 milljarða í veiðigjöld. Það er tap upp á 1,2 milljarða sem við erum í rauninni, allir hérna úti, allir á aldrinum 18–65, að borga til þessara stofnana sem sjá um umsýslu vegna sjávarauðlindarinnar fyrir stórútgerðina. Hver og einn borgar 5.000 kall fyrir þetta. Þetta er eitt ár. Að meðaltali sveiflast það til hversu mikið veiðigjaldið er. Að meðaltali höfum við fengið u.þ.b. 500 millj. kr. á ári eftir kostnað.

Hérna er dálítið mikilvægt að átta sig á því að veiðigjaldið er reiknað þannig út að það er tekið aflaverðmæti, sem getur verið innan verðlags skiptaverðsstofunnar sem er lægra verð, 75% af heildarverðinu, þannig að það er ákveðin tilfærsla á kostnaði sem fer þar fram, sem er ákveðið svindl gagnvart veiðigjaldinu. En eftir að búið er að draga frá allan kostnað útgerðarinnar, laun og allt, afföll skipa og ég veit ekki hvað og hvað, þá stendur eftir ákveðinn reiknistofn, hluti veiðigjaldsins. Það er afgangurinn eftir allan kostnað. Af þeim afgangi fær ríkið einn þriðja, 33%. Útgerðin, eftir allan kostnað, fær að halda tveimur þriðju af því. Þetta er af óunnum þorski þannig að við getum síðan tekið það í vinnslu, þar verður verðmætaaukning sem er bara í venjulegu fyrirtækjaumhverfi og þar er greiddur eðlilegur skattur af o.s.frv. En þetta er varðandi aðganginn að auðlindinni. Arðurinn af aðgangi að auðlindinni skiptist þannig: Einn þriðji til ríkisins, tveir þriðju til útgerðarinnar. En — og þetta er rosalega stórt en — ríkið á eftir að borga allan sinn kostnað fyrir þennan eina þriðja sem það fær. Það er fyrir kostnað, ekki eftir kostnað. Réttlátara væri að kostnaður ríkisins væri reiknaður áður en afgangnum er skipt, nákvæmlega eins og útgerðin fær að gera. En það er ekki gert. Það gerir að verkum, samkvæmt síðustu heildarupplýsingar sem við höfum um það fyrir árið 2020, að við borguðum, hvert einasta mannsbarn hérna á vinnandi aldri, 5.000 kr. með stórútgerðinni.