152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

251. mál
[19:32]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti, hv. þingheimur og þjóðin sem horfir á. Ég fagna þessu frumvarpi Pírata. Mér datt í hug meðan ég var að hlusta á ræðu hv. þingmanns að skátarnir segja: Eitt sinn skáti, ávallt skáti. Við í veitingabransanum segjum: Eitt sinn veitingamaður, alltaf veitingamaður. Svo segja sjómennirnir: Eitt sinn sjómaður, alltaf sjómaður. Ég átti heima í Grindavík á árunum 1974–1977 og kynntist útgerðarumhverfinu. 17 ára gamall var ég kominn á síðutogarann Þormóð goða, háseti, og ég fór á Víkurbergið í bæði loðnu- og þorskveiðar 1980, ef ég man rétt, þannig að mér er þetta umhverfi sjómanna mjög kært. Þær tölur sem koma fram í frumvarpi hv. þingmanns eru svo ósanngjarnar fyrir strandveiðisjómennina. Ef það eru 2% af heildarafla sem þeir fá leyfi til að veiða, hvað er að ske? Strandveiði heldur lífinu í mörgum litlum byggðarlögum úti um allt land. Það væri synd að reka allt fólkið í bæinn. Þessir menn sem eru á sjónum elska sjóinn og það er ósanngjarnt að leyfa þeim ekki að veiða, ég segi ég nú bara ótakmarkað af því það er ekki það mikið sem þeir eru að veiða — skiptir máli hvort það eru 2% eða 4%. Þessi skipting á veiðigjöldunum — ég tek undir það að það væri eðlilegast að reikna kostnaðinn fyrst og svo væri einn þriðji fyrir ríkið.