152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

251. mál
[19:36]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir greinargóða yfirferð á þessu góða frumvarpi. Það hefur verið stefna Flokks fólksins frá upphafi, held ég að megi segja, að gefa handfæraveiðar frjálsar á Íslandi og hv. þm. Eyjólfur Ármannsson er með frumvarp sem á ýmislegt skylt við það sem hér um ræðir, þannig að við deilum þeim lykiláherslum sem hér koma fram. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að okkur beri að sýna því virðingu sem hér hefur verið stundað frá því að byggð hófst á Íslandi, þ.e. þeim atvinnuvegum sem eru íslenskur búskapur annars vegar, matvælaframleiðsla í landbúnaði, og sjósókn hins vegar. Það eru fallegar búgreinar sem við eigum og megum vera stolt af. Við eigum að standa vörð um þær. Þær eru hluti af því aðdráttarafli sem við teljum í góðu ári í milljónum ferðamanna sem hingað koma og kjósa að kynna sér land og þjóð.

Ég tel að við ættum að geta sammælst um að það stafar engin hætta af handfæraveiðum. Lífríkinu umhverfis Ísland getur engin hætta stafað af handfæraveiðum. Það er bókstaflega sorglegt að sjá hve mörg byggðarlög hafa orðið fórnarlömb þess kerfis sem hér var komið á fót 1984 og þróaðist síðan í átt að því sem er að sumu leyti lýst ansi skemmtilega í ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöldum, í Verbúðinni, hvernig dugnaðarforkar og útsjónarsamir bisnessmenn náðu að sölsa undir sig kvótann og hreinsa upp hér. Og á sama tíma lögðust ýmis sjávarpláss í hálfgerða rúst miðað við það sem áður hafði verið. Ég nefni Stöðvarfjörð sem eitt fjölmargra fórnarlamba þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið.

Hvernig verða svona stefnur til? Við þekkjum það mætavel í þessu húsi að það á sér stað mikið pot hagsmunaaðila, þeirra sem hafa til þess burði, krafta og fjármagn, að leita atfylgis PR-fyrirtækja, almannatengla og slíks. Og ef potið er viðvarandi og málin rétt upp lögð þá geta þau orðið að lögum, jafnvel fyrr og hraðar en nokkurn hefði grunað.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er hann sammála því sem ég hef sagt, að lífríkinu í kringum Ísland og stofnunum sem hér er auðvitað hart barist um, stórlöxunum öllum, geti ekki stafað nein hætta af trillukörlunum okkar og handfæraveiðimennskunni sem hér um ræðir? Liggur það ekki nokkuð ljóst fyrir? Ég spyr.