152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

skipulag háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis.

[15:45]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir að hrósa ríkisstjórninni og stjórnsýslunni fyrir allt það góða sem hún hefur verið að gera, sérstaklega það sem leitt hefur verið af hæstv. fjármálaráðherra með Stafrænu Íslandi, með betri þjónustu, með aukinni stafvæðingu þannig að fólk geti haft meiri aðgang að hinu opinbera. Það er bara hárrétt hjá hv. þingmanni að það hefur ótrúlega mikið gerst hjá hinu opinbera. En betur má ef duga skal í þessu og því langar mig að ganga lengra, nýta þau tækifæri sem hið opinbera hefur ekki nýtt til þessa sem fyrirtæki í tækni og nýsköpun hafa verið að leiða. Nýsköpun í opinberri þjónustu er heldur betur eitt af stóru málunum sem þarf að vera á dagskrá, ekki bara svo við þjónustum borgarana betur og komum verkefnum hraðar áfram, heldur líka til að við nýtum þá ótrúlegu tækni og hugsjón og hugvit í heilbrigðisgeiranum og menntakerfinu, í kerfunum okkar sjálfum, og fyrirtækjum sem við höfum verið að styðja til þessa með ýmsu, Tækniþróunarsjóði t.d., að við nýtum þau til þess að fara betur með fé og þjónusta landsmenn betur.