152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19 .

[15:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil meina að undanfarin ár hljóti að hafa kennt okkur að ábyrg ríkisfjármálastefna sé lykillinn að langtímavelsæld og efnahagslegum stöðugleika á Íslandi; að allir hljóti að sjá að það að hafa búið í haginn þegar vel áraði hafi skipt sköpum í því að geta brugðist við, beitt ríkisfjármálum þegar við lentum í heimsfaraldri. Sem betur fer eru nú merki uppi um að við séum að sigla inn í síðustu mánuðina af þessum heimsfaraldri. Maður veit svo sem aldrei, en jákvæð merki eru uppi um þessar mundir. Þá er ágætt að líta yfir sviðið og gera sér grein fyrir því að við búum nú við talsverð umsvif í flestum greinum hagkerfisins og losnum óðum úr viðjum takmarkana á daglegt líf. Við þær breyttu aðstæður þurfa ríkisfjármálin að endurspegla breytta tíma.

Ég sagði hér á fyrstu dögum þessa heimsfaraldurs að það væri mín skoðun að við þyrftum að gera meira frekar en minna, að tjónið af því að gera of lítið gæti verið meira en umframkostnaðurinn af því að gera mögulega aðeins of mikið. Þetta hefur mjög mikið breyst. Nú sjáum við að margar vélar atvinnulífsins eru á fullum snúningi. Áhrif heimsfaraldursins koma niður á afmörkuðum sviðum, í ferðaþjónustu og í veitingaþjónustu og tengdum greinum, eins og við ræðum þessar vikurnar, en annars staðar hefur bara verið nokkuð góður þróttur í hagkerfinu. Það segir mér að okkur hefur tekist vel til við að stilla efnahagsaðgerðir í samræmi við aðstæður, fleyta okkur yfir erfiðasta tímann, tryggja að þessi nauðsynlega viðspyrna sé til staðar þegar ský dregur frá sólu að nýju. Þá er sömuleiðis eðlilegt að við drögum úr stuðningi ríkisfjármálanna við hagkerfið.

Það væri líka eitthvað sérstakt við það að á sama tíma og Seðlabankinn er að hækka vexti til að bregðast við meiri þenslu í hagkerfinu þá værum við í sama gírnum, í sömu aðgerðum við að reyna að örva hagkerfið. Það þarf ekki að örva það með sama hætti eftir að 20.000 ný störf hafa skapast á síðastliðnum 12 mánuðum eða svo, orðið til að nýju. Það er á margan hátt að ganga betur en við þorðum að vona þegar við vorum að spá í spilin fyrir u.þ.b. ári og allt kallar það á breyttar áherslur. Ríkisfjármálunum hefur verið beitt af mjög miklum krafti. Það birtist okkur m.a. í um 530 milljarða halla ríkissjóðs síðustu tvö ár. En þrátt fyrir mikið efnahagsáfall hafa ráðstöfunartekjur fólks aukist, kaupmáttur hefur vaxið. Það er í raun og veru ótrúlegt. Kaupmáttur hefur vaxið í gegnum þennan heimsfaraldur og hann hefur aldrei verið meiri, ekki einu sinni hjá þeim tekjulægri. Gjaldþrot fyrirtækja — einhver hefði haldið að þau yrðu mjög áberandi í hagkerfinu í gegnum heimsfaraldur. En nei, þau eru ekki fleiri en í venjulegu árferði. Og ólíkt því sem gerst hefur víða annars staðar hefur faraldurinn ekki leitt til aukins tekjuójafnaðar og þó erum við að tala um það hagkerfi sem fyrir var með einn mesta tekjujöfnuð í hinum þróaða heimi. Vextir hafa verið lágir í sögulegu samhengi, eru teknir að hækka að nýju. En þessir lágu vextir höfðu mjög mikla þýðingu hvað varðar lægri greiðslubyrði heimilanna í landinu.

Þessi góða saga er svo langt því frá að vera sjálfsögð og við þurfum að staldra við. Ég fagna því að taka umræðu um þessi mál og við þurfum aðeins að ræða það og velta því fyrir okkur hvað það er sem hefur tekist vel. Það er svo langt frá því að vera sjálfsagt að menn geti tekist á við jafn mikla óvissu og við höfum verið að gera með þeim hætti að vel takist til í öllum atriðum. Auðvitað hefði sums staðar mátt bregðast við með öðrum hætti en heilt yfir er árangurinn framúrskarandi góður. Við höfum í sjálfu sér búið við óvissu alveg fram á síðustu vikur og síðustu daga. Í síðustu viku talaði heilbrigðisráðherra um að hann vildi grípa til afléttingar í þessari viku. Það sýnir að við höfum allt fram á þennan dag kannski ekki haft nema vikusýn inn í framtíðina.

Á undanförnum vikum og mánuðum höfum við verið að móta og leggja fyrir þingið ný og framlengd úrræði til að forða tjóni vegna áframhaldandi sóttvarnatakmarkana. Verkefnið í upphafi þessa árs fólst í að meta með hvaða hætti ætti að haga stuðningi við heimilin og fyrirtækin í landinu á lokaspretti baráttunnar. Við viljum trúa því að við séum stödd þar. Þrátt fyrir ágæta jólavertíð og ágætisveltu á veitingastöðum í desembermánuði bentu tölur í upphafi árs til þess að landsmenn hefðu dregið sig til hlés vegna bylgju veirunnar. Það byrjaði að gerast undir lok desembermánaðar, við sjáum það í veltutölum. Þessi þróun ágerðist í janúar með fjölgun smita og að sjálfsögðu hefur víðtæk sóttkví og einangrun haft mikil áhrif. Kortavelta á hvern ferðamann dróst sömuleiðis saman. Við erum ekki með þetta brotið niður á einstakar greinar en þetta er ástæðan fyrir því að við höfum haldið áfram að koma með úrræði og frumvörpin eru sum hver komin hingað inn í nefndir þingsins.

Hér í dag stendur til að ég mæli fyrir almennu viðspyrnustyrkjunum. Við höfum ákveðið að leggja til við þingið að þeir verði framlengdir. Það hefur fylgt því að við sjáum meiri áhrif en við vorum að vonast til af þessari síðustu bylgju þó að við séum vonandi að komast út úr henni á næstu vikum. Það urðu talsverðar breytingar á bókunum. Fjöldi ferðamanna í janúar stóð ekki undir væntingum og við sjáum einhver merki um að ferðaþjónustufyrirtæki verði fyrir nokkrum áhrifum á komandi vikum, miðað við það sem fyrri væntingar stóðu til. En þegar við horfum aðeins lengra inn í árið þá er útlitið ágætt.

Ég er sannfærður um að við erum á lokametrum baráttunnar við veiruna. Við erum vel bólusett þjóð. Við erum með öfluga innviði. Við höfum haldið þannig á málum að við eigum að geta haft góða viðspyrnu og fengið þróttmikinn vöxt í framhaldi af afléttingu takmarkana. En ríkisfjármálastefnan og það hvernig við notum opinbert fé er einn lykilþátturinn vegna þess að nú er verðbólgan farin að láta kræla á sér að nýju. Við þurfum að stilla stjórntækin vel saman þannig að það verði skammtímavandamál en fylgi okkur ekki inn í lengri framtíð.