152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:55]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, hann sló gjarnan um sig með orðunum að gera meira en minna, fyrir einu og hálfu ári. En svona í seinni tíð talar hann meira um að gera minna en meira, og það er út af fyrir sig skiljanlegt. Við erum að sigla út úr kreppunni, segir hann, en hindranir eru þó síður en svo úr veginum. Við þurfum að gæta sérstaklega vel að því að endurræsingin bitni ekki á viðkvæmustu hópunum. Það voru býsna djörf orð höfð uppi af m.a. hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórninni allri um að vaxtalækkunarferli sem hófst á sínum tíma væri árangur ábyrgrar efnahagsstjórnar. Þessar yfirlýsingar hafa gefið fólki væntingar og hvatt marga til að skuldsetja sig meira í húsnæðiskaupum en efni stóðu kannski til. Í þeim hópi hefur eflaust verið fjöldi af ungu fólki sem skuldsetti sig miðað við þær forsendur sem voru á lofti þá.

Núna, nokkrum mánuðum síðar, er Seðlabanki Íslands býsna skýr um það að í hönd fari tímabil örra stýrivaxtahækkana, mögulega. Það er því algerlega augljóst að ríkisstjórnin ber bara töluvert mikla ábyrgð á stöðunni sem er núna í farvatninu og verður að bregðast við þeirri grafalvarlegu stöðu sem mætir heimilunum. Og það er ekki rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að hér hafi ójöfnuður ekki aukist þótt meðaltal sýni það kannski að allt sé í besta ástandi. Samkvæmt könnun Vörðu nýlega kemur bara í ljós að mjög margir hafa það býsna erfitt og viðkvæmir hópar hafa það verr en nokkru sinni fyrr. Við getum fullyrt að heimili landsins eru a.m.k. á appelsínugulri viðvörun núna. Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra hvernig hann ætli að bregðast við: Kemur til greina að hækka barnabætur, vaxtabætur, húsaleigubætur, til að mæta stöðunni eða hvernig ætlar hann að bregðast við stöðunni sem er fram undan?