Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

41. mál
[18:27]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Við erum að tala um tengda aðila í sjávarútvegi. Með mér á málinu er þingflokkur Flokks fólksins, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

1. gr. hljómar svo, með leyfi forseta:

„4. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:

Tengdir aðilar teljast:

1. Aðilar, þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, á beint eða óbeint a.m.k. 20% af hlutafé eða stofnfé í hinum aðilanum eða fer með samsvarandi hluta atkvæðisréttar. Fyrrnefndi aðilinn telst móðurfyrirtæki en hinn síðarnefndi dótturfyrirtæki.

2. Aðilar, þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, hefur rétt til að tilnefna meiri hluta stjórnarmanna í hinum aðilanum, hefur í gegnum samninga heimild til að taka ákvarðanir um hagsmuni hins aðilans, hefur á grundvelli samninga eða umboðs heimild til að skuldbinda hinn aðilann, getur í krafti atkvæðavægis síns komið í veg fyrir að aðrar tillögur verði samþykktar þrátt fyrir stuðning annarra atkvæða, svo sem vegna kröfu um samhljóða atkvæðagreiðslu. Sama á við ef tengdir aðilar skv. 1. eða 3. tölul. hafa vegna tengsla sömu heimildir og greinir í 1. málsl.

3. Lögaðilar, þar sem svo háttar til að sami aðili eða sömu aðilar, einstaklingar eða lögaðilar, eða tengdir aðilar skv. 1. eða 2. tölul., eiga yfir 20% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti í báðum eða öllum lögaðilunum enda nemi eignarhlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 5% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðafjölda í viðkomandi lögaðilum. Sama á við ef aðili eða aðilar, einstaklingar eða lögaðilar, eða tengdir aðilar skv. 1. eða 2. tölul., sem eiga hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétt í lögaðila, eiga ásamt viðkomandi lögaðila hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétt í öðrum lögaðila.

4. Til eignarhluta og atkvæðisréttar einstaklinga í lögaðilum skv. 1.–3. tölul. telst jafnframt eignarhluti og atkvæðisréttur maka, skyldmenna og mægðra aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar og aðila sem tengjast með sama hætti vegna ættleiðingar.“

3. gr. laganna orðist svo:

„Á eftir 14. gr. laganna kemur ný grein, 14. gr. a, svohljóðandi:

Fiskistofa getur krafið einstök fyrirtæki, fyrirtækjahópa og samtök fyrirtækja, sem lög þessi taka til, um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála. Upplýsinga er hægt að krefjast munnlega eða skriflega og skulu þær gefnar innan hæfilegs frests sem stofnunin ákveður.

Fiskistofa getur með sömu skilyrðum og í 1. mgr. krafist þess að fá gögn afhent til athugunar. Skulu þau afhent innan hæfilegs frests sem stofnunin ákveður.

Fiskistofa getur í starfi sínu krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal frá samkeppnisyfirvöldum, skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, óháð þagnarskyldu þeirra.

Fiskistofa getur einnig lagt skyldu á þá aðila sem um getur í 1. mgr. að upplýsa stofnunina reglulega um atriði sem máli skipta við framkvæmd laga þessara.

Fiskistofa getur gefið slík fyrirmæli með opinberri tilkynningu.

Fiskistofa getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð fyrirtækis og samtaka fyrirtækja og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum eða ákvörðunum stjórnvalda.

Við framkvæmd aðgerða skal fylgja ákvæðum laga um meðferð sakamála um leit og hald á munum.“

Og 4. gr. kveður á um að lög þessi öðlist gildi 1. janúar 2022.

Virðulegi forseti. Ég ætla að vísa lítillega í greinargerð með frumvarpinu. Frumvarp þetta var áður lagt fram á 150. og 151. löggjafarþingi, það er sem sagt í þriðja sinn sem við mælum fyrir því hér. Það er verið að rembast eins og rjúpan við staurinn til að koma í veg fyrir að það komi upp á yfirborðið hverjir eru raunverulega tengdir aðilar í sjávarútvegi. Til að tryggja virka samkeppni og sporna við því að veiðiheimildir safnist á fáar hendur eru í lögum um stjórn fiskveiða ákvæði sem kveða á um að samanlögð aflahlutdeild tengdra aðila megi ekki fara umfram ákveðið hlutfall heildarafla. Mikilvægt er að tryggja virka samkeppni í fiskveiðum. Virk samkeppni í sjávarútvegi stuðlar að aukinni vernd neytenda og launþega og einnig að betri nýtingu auðlinda. Fiskveiðistofnar Íslandsmiða eru ein helsta auðlind þjóðarinnar og því er mikilvægt að tryggja að aðgangur að þeirri auðlind safnist ekki á fáar hendur. Auðvitað er mikilvægt að tryggja það en það er sennilega að verða of seint í rassinn gripið því að ég veit ekki betur en að sjávarauðlindin okkar sé nákvæmlega komin í örfárra hendur. Það væri því afskaplega ánægjulegt ef þessu frumvarpi yrði gefinn frekari gaumur. Ég vil líka taka fram að það eru fleiri flokkar í stjórnarandstöðu, ég held hreinlega að við séum öll, Viðreisn, Píratar og Samfylking, með einhverja útfærslu á því að reyna að nálgast löggjöfina um tengda aðila þannig að það sé fært enn frekar upp á borðið. Ef ég þarf að mæla fyrir þessu eina ferðina enn, sem ég býst við, því að ekki hefur verið skipt um fólkið í brúnni og þá hagsmunagæslufulltrúa sem hafa verið að verja sjávarútveginn með kjafti og klóm, þá væri ánægjulegt að við tækjum okkur öll saman og kæmum hér með eitt öflugt frumvarp.

Núverandi löggjöf er um margt gölluð þegar kemur að skilgreiningu á tengdum aðilum og eftirlitsheimildir Fiskistofu eru verulega takmarkaðar miðað við önnur eftirlitsstjórnvöld. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Fiskistofu kom m.a. fram að Fiskistofa kanni ekki hvort tengsl séu á milli aðila með markvissum og reglubundnum hætti heldur reiði sig alfarið á upplýsingar frá handhöfum aflaheimilda. — Að hugsa sér. Maður getur bara fengið að rannsaka sig sjálfur; hvaða prakkarastrik sem maður gerir sem varðar við lög, þá fær maður bara að rannsaka það sjálfur, samkvæmt þessu. Það hefur nú ekki verið talið farsælt, virðulegi forseti. — Einnig kom fram að Fiskistofa teldi að það væri í raun óframkvæmanlegt að afmarka hvort tengsl væru til staðar vegna „raunverulegra yfirráða“ þar sem ákvæðið væri of matskennt.

Í þessu frumvarpi eru lagðar til nokkrar breytingar sem hafa það að markmiði að skýra betur hvort tengsl séu á milli aðila og efla eftirlitsheimildir Fiskistofu svo að stofnunin geti rannsakað með viðhlítandi hætti hvort tengsl séu á milli aðila. Verði frumvarpið samþykkt mun Fiskistofa geta sinnt eftirliti með því hvort samþjöppun aflaheimilda sé of mikil og gripið til aðgerða ef svo er. Þannig verður betur tryggt að auðlindir þjóðarinnar safnist ekki á of fáar hendur með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara frekar út í einstakar greinar frumvarpsins en tilurð þess kemur náttúrlega í framhaldi af því að við erum hér með ákveðið viðmið þar sem ein og sama útgerðin og keðjan á ekki að eiga hlutdeild í meira en 12,5% af aflaheimildunum í kringum landið, á ekki að geta sagt að þeir hafi meiri veiðirétt en það. Ég biðst forláts, virðulegi forseti. Ég mismælti mig. Auðvitað eiga þeir ekkert í fiskinum í sjónum, hann er sameign þjóðarinnar. Við vitum það öll, er það ekki? En í þessu tilviki hafði það frést og var altalað að þarna væri ákveðin útgerð sem hefði mun meira vægi, yfir 15%, ríflega 3% meira en lög gerðu ráð fyrir, sem þessi útgerð var með á sínum snærum af aflaheimildum. Þetta er svona eins og gengur: Hvað eru tengdir aðilar? Hvað er móðurfyrirtæki? Hvað er dótturfyrirtæki? Hvað er kennitöluflakk? Hvernig er hægt að koma þessu yfir á einn og láta líta út fyrir að þú eigir ekkert í því og allt það?

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að þetta frumvarp verði skoðað með bjartsýni og bros að leiðarljósi. Við erum jú að tala um sameign okkar allra og það er vert að þau lög sem Alþingi Íslendinga hefur sett um greinina, um sjávarútveginn, um þá sem hafa aðgang að henni, séu raunverulega virt og þetta frumvarp er eitt af því sem á að hjálpa til þess.