Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

framkvæmdaáætlun í málefnum barna.

[11:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þann 12. júní 2019 var samþykkt hér á þingi framkvæmdaáætlun í málefnum barna. Allir greiddu atkvæði með áætluninni sem var kostnaðarmetin upp á rúma 1,2 milljarða kr. Ég finn að vísu einungis um 800 milljónir í fjárlögum síðan þá. Áætlunin snerist m.a. um samstarf og heildarsýn í málefnum barna, snemmtæka íhlutun og fyrirbyggjandi aðgerðir. Starfsfólk BUGL kom á fund velferðarnefndar í vikunni og kynnti starfsemi sína og óásættanlegan biðtíma eftir meðferð, en meðalbiðtími er um sjö og hálfur mánuður og aukning hefur verið í bráðatilfellum í Covid sem hefur slæm áhrif á þann biðlista. Helstu skilaboð starfsfólksins til okkar voru að efla ætti fyrirbyggjandi aðgerðir.

Nú nær framkvæmdaáætlunin bara út þetta ár, 2019–2022, og er einsýnt að ekki næst að klára öll þau verkefni sem eru tilgreind í þeirri áætlun. Það er t.d. ekki einu sinni búið að taka fyrstu skóflustunguna að nýju meðferðarheimili í Garðabæ enn. Það er enn áhugaverðara að ný framkvæmdaáætlun í málefnum barna er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Ef fjármagna ætti nýja áætlun ætti hún að vera tilbúin í vor til að hægt sé að taka tillit til hennar í fjármálaáætlun og í fjárlögum næsta árs.

Miðað við þetta, óljósar fjárheimildir vegna framkvæmdaáætlunar, að framkvæmdaáætlun er ekki að klárast, það vantar nýja framkvæmdaáætlun og það er fjöldi bráðatilfella hjá BUGL og biðlistar lengjast, spyr ég: Hvenær megum við eiga von á því að farsældarlögin fari að skila árangri? Er það á þessu ári, á næsta ári, eftir fimm ár? Ráðherra hlýtur að vita það með nægilegri nákvæmni til að geta sagt okkur það hér og nú: Hvenær fara farsældarlögin að skila árangri og meðferðarúrræði á fyrsta og öðru stigi að hafa áhrif á það að við þurfum í raun ekki að nýta þriðja stigið?