Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

framkvæmdaáætlun í málefnum barna.

[11:20]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hann er að velta fyrir sér hvernig hægt sé að sannfæra þingheim um að ljúka innleiðingunni. Ég held að það sé hægt að gera það með því að vera í samfelldu samstarfi við þingið. Hluti af löggjöfinni felst í því að kjósa sérstaka þingmannanefnd sem á að vinna með ráðuneytinu að innleiðingunni, þannig að við munum gera allt sem við getum til að ljúka innleiðingunni að fullu. En það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er þungur endi sem eru þriðja stigs úrræði í dag og við þurfum að fara ofan í það í bráð, þ.e. bráðavanda á einstaka stofnunum, BUGL og fleirum, en líka með hvaða hætti við ætlum að sjá úrræðin á þriðja stiginu. Við þurfum að endurskipuleggja þau öll. Við hófum þá vinnu í lok síðasta kjörtímabils og höldum henni áfram núna vegna þess að það skortir líka samtal þar á milli. Það er oft þannig að barn sem er á einum stað velkist á nokkrum öðrum stöðum í viðbót. Þannig að löggjöfin mun líka auðvelda þriðja stigs endann á úrræðunum. Þess vegna leggjum við alla áherslu á innleiðingu þessarar löggjafar og það verður meginverkefni nýs mennta- og barnamálaráðuneytis að innleiða hana. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar og orðaskiptin um þetta mál.