Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

vaxtahækkun Seðlabankans.

[11:21]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra sem jafnframt er varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Ég gerði í gær að umtalsefni hér í störfum þingsins þá staðreynd að það eru bara fimm mánuðir síðan Sjálfstæðisflokkurinn trommaði út um allt samfélag að nú væru lægstu vextir í sögunni. Þetta var um allt; lægstu vextir í sögunni. Hvergi fylgdi þeirri frásögn að allt benti til að þeir myndu hækka aftur og það verulega ef við skoðum sögulega samhengið.

Nú hafa hæstv. fjármálaráðherra og seðlabankastjóri að undanförnu talað um þessa vexti í því samhengi að stýrivextir á Íslandi séu vissulega lágir núna í sögulegu samhengi. Mig langar í því samhengi að nefna að lágir vextir í íslensku sögulegu samhengi eiga ekki að vera viðmiðið. Það er efnahagslegt metnaðarleysi að halda því fram. Við eigum frekar að miða okkur við nágrannalöndin þar sem vextir eru miklu, miklu lægri.

Það birtist viðtal við ungan mann í gær, Daníel Inga Sigfússon, sem er í námi og vinnur einnig á kaffihúsi. Lánið hans er að hækka um 30.000 kr. á mánuði vegna stýrivaxtahækkana Seðlabankans í gær. Hann segir: Ég vissi að fyrstu mánuðirnir mínir yrðu aðeins krappari en næstu. Þá gerði ég bara ráð fyrir að allar spár og allir sérfræðingar væru svona ágætlega á réttum nótum. Ég hugsaði: Ókei, þetta mun ekki hækka mikið, ég mun ráða við smá hækkun.

Spár segja okkur að vextirnir muni hækka enn meira á þessu ári og ég vil spyrja hæstv. ráðherra og varaformann Sjálfstæðisflokksins hvort hann finni til ábyrgðar þegar kemur að stöðu þessa fólks og hvort hann eigi góð ráð fyrir þennan unga mann og þá sem eru í sömu stöðu en það eru þúsundir í samfélaginu um þessar mundir.