Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 38. fundur,  21. feb. 2022.

hugmyndir viðskiptaráðherra um bankaskatt.

[15:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Maður er auðvitað hálffeiminn andspænis þessu fjölmenni hérna en ég ætla samt að manna sig upp í að spyrja hæstv. ráðherra út í efnahagsmál. Það eru teikn á lofti um að heimilin þurfi að hafa áhyggjur. Það eru hækkandi vextir og verðbólguspáin er slæm. Þess vegna höfum við í Samfylkingunni og fleiri stjórnarandstöðuflokkar kallað eftir sértækum aðgerðum sem tryggja að endurræsing hagkerfisins bitni ekki á viðkvæmum hópum og höfum lagt fram tillögu hér á Alþingi um mótvægisaðgerðir þar sem hugað er að þessu. Í kjölfar þess rauk viðskiptaráðherra í fjölmiðla og lýsti yfir að ríkisstjórnin sé búin að greina ástandið og sé meðvituð um stöðu einstakra hópa. Hún hefur verið nokkuð yfirlýsingaglöð allan febrúar og beinlínis lagt til beinharðar aðgerðir, nefnt einkum þrennt; að ríkisstjórnin skattleggi ofurhagnað einstakra greina, svo sem sjávarútvegs, að bankar nýti ofurhagnað til að niðurgreiða vexti af íbúðalánum, ellegar muni ríkisstjórnin leggja á bankaskatt, og að ríkisstjórnin muni beita vaxtabótakerfinu af meiri þunga. Sumar af þessum hugmyndum höfum við í Samfylkingunni talað fyrir, m.a. að arðbærustu fyrirtækin í sjávarútvegi borgi meira til samfélagsins og að nýta eigi vaxtabótakerfið betur heldur en gert hefur verið. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur hins vegar algerlega andmælt þessu og er ósammála viðskiptaráðherra í öllum meginatriðum. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra um þrennt: Hafa tillögur viðskiptaráðherra verið ræddar í ríkisstjórn? Ef svo er, hver er afstaða ríkisstjórnarinnar til þeirra? Og í þriðja lagi, af því að rökræðan hefur algerlega átt sér stað á milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins: Hver er afstaða flokks forsætisráðherra til þessara tillagna viðskiptaráðherra?