Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 38. fundur,  21. feb. 2022.

hugmyndir viðskiptaráðherra um bankaskatt.

[15:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég verð að segja að það gleður mig ofboðslega að sjá þingsalinn skipaðan eins og hann er í dag. Það vekur mér vonir um að við séum loksins komin á þennan stað, að endurheimta eðlilegt líf. En til að bregðast við fyrirspurn hv. þingmanns get ég í fyrsta lagi sagt það hér að ég held að staða efnahagsmála endurspegli að aðgerðir stjórnvalda vegna áhrifa faraldursins báru árangur. Við höfum endurheimt þau störf sem töpuðust í faraldrinum. Hv. þingmaður man vel þegar við ræddum stöðuna, bæði í fyrra og hittiðfyrra, að þá voru ýmsir sem óttuðust að við værum að fara að glíma við langvinnt atvinnuleysi af völdum faraldursins. Þær áhyggjur hafa ekki gengið eftir vegna þess að við höfum beitt ríkissjóði af fullum þunga til að koma til móts við almenning í landinu og atvinnulífið í landinu.

Nú eru vextir á sama stað og þeir voru fyrir faraldur og endurspegla að einhverju leyti aukin umsvif í hagkerfinu alveg eins og vaxtalækkunin endurspeglaði að hagkerfið var að dragast saman vegna faraldursins. Þannig virka stýrivextir seðlabanka. Það sem við er að glíma er að mínu viti tvennt: Það er annars vegar sú staða að verðbólga er alls staðar á uppleið og það hefur bein áhrif á lífskjör fólks. Hins vegar er það húsnæðismarkaðurinn sem ég held að verði eitt okkar stærsta viðfangsefni á næstu mánuðum og misserum. Ég hef af þeim sökum skipað framhaldsátakshóp í húsnæðismálum sem er ætlað að taka sérstaklega á framboði á húsnæðismarkaði.

Til að ég svari fyrirspurn til ráðherra um tillögur viðskiptaráðherra þá hafa þær ekki verið ræddar í ríkisstjórn. Ég vil hins vegar segja það almennt um mína afstöðu að mér finnst það vera okkar hlutverk að koma til móts við þau sem standa (Forseti hringir.) höllustum fæti og þar vil ég sérstaklega horfa á þau sem eru á leigumarkaði (Forseti hringir.) sem almennt er tekjulægsta fólkið. Verðbólgan fer jafnvel að hafa raunveruleg áhrif á möguleika þess fólks á að ná endum saman. Ég kem nánar að þessu í síðara svari.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á takmarkaðan ræðutíma.)