Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 38. fundur,  21. feb. 2022.

almenn hegningarlög.

318. mál
[16:06]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum er varðar erlend mútubrot. Frumvarp þetta er liður í því að styrkja og efla getu íslenskra stjórnvalda í að koma upp um, rannsaka og ákæra fyrir brot er varða mútugreiðslur til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum. Ísland fullgilti samning Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar, OECD, um erlend mútubrot þann 17. ágúst 1998. Síðan hafa íslensk stjórnvöld tekið virkan þátt í því að innleiða og hafa eftirlit með framkvæmd samningsins á vettvangi sérstaks vinnuhóps OECD á þessu sviði en hann nefnist Working Group on Bribery. Nefnd á vegum vinnuhópsins framkvæmdi úttekt hér á landi 2020. Í desember sama ár kom út fjórða úttektarskýrsla um framkvæmd Íslands á samningnum en úttektin laut einmitt fyrst og fremst að getu íslenskra stjórnvalda til að koma upp um erlend mútubrot, auk rannsóknar þeirra og saksóknar. Í skýrslunni er ýmsum tilmælum beint til íslenskra stjórnvalda um aðgerðir til úrbóta í því skyni að framkvæmd samningsins hér á landi geti verið í samræmi við efni hans og kröfur gagnvart aðildarríkjunum. Frumvarp þetta er því samið í þeim tilgangi að uppfylla þau tilmæli vinnuhópsins er lúta sérstaklega að ákvæðum almennra hegningarlaga sem varða erlend mútubrot.

Efni frumvarpsins er að mestu lagatæknilegs eðlis. Þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á ákvæðum 264. gr. a hafa það að markmiði að taka af allan vafa um að ákvæðið taki einnig til mútubrota er beinast að starfsmönnum erlendra fyrirtækja í opinberri eigu með sama hætti og ákvæði 2. mgr. 109. gr. tekur almennt til erlendra opinberra starfsmanna. Jafnframt er kveðið á um breytingu á refsihámarki vegna brota gegn 109. gr. og 264. gr. a. Er það annars vegar til að bregðast við tilmælum vinnuhópsins um að refsingar fyrir erlend mútubrot skuli vera sambærilegar og fyrir mútuþágur samkvæmt 128. gr. laganna, þ.e. að hámarki sex ára fangelsi. Hins vegar er kveðið á um hækkun refsihámarks til að unnt sé að beita upptökuheimili í 69. gr. b laganna þegar sakfellt er fyrir erlend mútubrot. Loks er kveðið á um breytingu á 81. gr. laganna sem felur í sér að fyrningarfrestur refsiábyrgðar lögaðila vegna brota gegn 2. mgr. 109. gr. og 1. mgr. 264. gr. a verði tíu ár í stað núverandi fimm ára.

Frumvarp þetta er mikilvægur þáttur í því að Ísland uppfylli þær alþjóðlegu skuldbindingar sem stjórnvöld gengust undir með undirritun og fullgildingu mútusamnings OECD og munu áhrif þess að frumvarpið verði samþykkt eflaust verða til þess að styrkja íslensk stjórnvöld í baráttunni gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðaviðskiptum.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir aðalatriðum frumvarpsins og legg til að málinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og þóknanlegrar 2. umr.