Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 38. fundur,  21. feb. 2022.

almenn hegningarlög.

318. mál
[16:11]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvernig íslensk stjórnvöld geti uppfyllt þennan samning — ég hef í sjálfu sér ekki áhyggjur af því. Það liggur í orðanna hljóðan að við förum eftir þeim lagafyrirmælum sem um það gilda á hverjum tíma og eiga við um þau mál sem mögulega þarf að bregðast við í. Hér er nefnt eitthvert eitt ákveðið mál í þessu samhengi og spurt hvort héraðssaksóknaraembætti hafi verið styrkt alveg sérstaklega. Við búum við margar flöskuhálsa í þessu kerfi okkar sem er frá rannsókn í saksókn og síðan yfir í dómstóla og fullnustu. Það eru óásættanlegir flöskuhálsar í því kerfi sem lengi hafa legið fyrir. Það erum við að skoða og við því erum við að reyna að bregðast í ráðuneytinu. Við erum að reyna að horfa svolítið heildstætt á þetta þannig að það geti orðið aukin skilvirkni í því kerfi sem við búum við, sem er mjög mikilvægt og á ekki bara við um mál af þessum toga heldur í raun flesta málaflokka. Ég hef ekki fengið nein skilaboð frá héraðssaksóknaraembættinu sérstaklega um það að rannsókn á einhverjum einstökum málum, sem þyrfti að setja einhvern aukinn kraft í, væri til trafala að þessu leyti. Þetta er meira almenns eðlis. En ég veit að þar er málum forgangsraðað líka eftir mikilvægi þeirra að mati saksóknara, og ég hef engar upplýsingar um hvað því líður þar varðandi einstök mál, eins og gefur að skilja.