Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að nota þetta tækifæri sem hér gefst til að nefna tillögu til þingsályktunar sem ég vonast til að geta lagt fram þessa fáu daga sem ég sit hér að þessu sinni. Þetta er eitt af litlu málunum sem er svo stórt. Ályktunin snýst um vald og orð. Hún snýst um að fela ráðherra að skipa nefnd sem gerir tillögur að breyttum starfsheitum ráðherra. Orð, virðulegi forseti, skipta máli þó að við hugsum ekki oft út í merkingu þeirra í daglegri önn. Orð eru nefnilega mannanna verk og hafa merkingu, endurspegla samfélag og hugmyndir. Mig langar að ganga í þetta sinn á hólm við orðið ráðherra. Orðið leysti á sínum tíma af hólmi öllu þekkilegra orð, ráðgjafi, árið 1904 þegar konur voru ekki einu sinni með kosningarrétt og það þótti með öllu óhugsandi að konur gætu orðið ráðherrar. Orðið herra er vissulega ágætt til síns brúks, virðingartitill karlmanns sem gefur líka stundum til kynna hærri sess. En orðið er afskaplega afkáralegt þegar það er notað í starfsheiti sem vísar ekki einungis til karla eins og lengst af var. Enginn sagði herra Vigdís. Enginn segir herra biskup, nú þegar kona gegnir því starfi. Ísland sker sig úr þegar kemur að þessu starfsheiti; það er „minister“, „landsstýrimaður“, lögmaður, „chancellor“, „secretary“. Þetta eru dæmi um sambærileg heiti í öðrum löndum. Þetta starfsheiti, „herra forseti“, er úrelt menningarleif frá þeim tímum þegar karlar voru eina sýnilega kynið á opinberum vettvangi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)