Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Á morgun mun fara fram hér í þinginu sérstök umræða um dýravelferð, bann við blóðmerahaldi. Þessi sérstaka umræða verður á milli mín og hæstv. matvælaráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, og vonandi ykkar allra, kæru samþingmenn. Þetta er mjög mikilvægt mál. Í fáum málum hefur annar eins fjöldi umsagna borist til fastanefnda. Atvinnuveganefnd bárust um 137 umsagnir. Það bárust vel á þriðja hundrað umsagnir til Umhverfisstofnunar sem var að endurnýja og þrefalda leyfi Ísteka til sinna starfa. Ég hvet því alla til að fylgjast með umræðunni á morgun. Ef við lítum heildstætt á málið þá erum við ekki bara að tala um velferð dýra — við getum kannski ekki sagt „bara“ þegar við erum að tala um velferð dýra, við getum ekki sagt það þannig. En hér erum við að fagna því að ferðamannaiðnaður okkar nái að blómstra á ný eftir erfiðleikana sem við höfum gengið í gegnum út af Covid-heimsfaraldrinum og þetta hlýtur líka að vera spurning, þegar við lítum heildstætt á málið, um þá ímynd sem við höfum á erlendri grund, nánast eins og þriðja heims ríki hvað varðar meðferð á dýrum eins og kom fram í myndinni sem hefur farið eins og eldur í sinu um heimsbyggðina. Svisslendingar voru nú nýlega að banna innflutning á PMSG-hormóninu sem er unnið úr blóði fylfullra mera og þetta mál hefur verið fyrir danska þinginu. Æ hærri raddir heyrast um þetta mál út um alla Evrópu, svo að ég tali ekki um Evrópuþingið. Ég hvet ykkur til að fylgjast með umræðunni á morgun vegna þess að þá (Forseti hringir.) hef ég meira en tvær mínútur til að láta ljós mitt skína hvað þetta varðar og mun gera það óspart.