Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Rússneski herinn hefur hafið innrás í Úkraínu. Þetta er að gerast í Evrópu í næsta nágrenni við okkur. Ég hitti unga konu, unga móður í gær sem sagðist vera hrædd. Fjölmiðlar tala um mögulega yfirvofandi heimsstyrjöld og það heyrist ekkert í leiðtoga ríkisstjórnarinnar. Af hverju eru íslensk stjórnvöld ekki að tala við þjóðina? Af hverju er þingið ekki að fjalla um málið? Af hverju fellir formaður utanríkismálanefndar niður fasta fundi á tímum sem þessum? Síðasti fundur utanríkismálanefndar var 2. febrúar. Hvað veldur þessu öskrandi áhugaleysi? Ef stríðsógn og átök í næsta nágrenni við okkur kalla ekki á viðbrögð utanríkismálanefndar Alþingis, til hvers er þessi nefnd? Reyndar hefur minni hlutinn tryggt það að um málið verði fjallað á fundi nefndarinnar á morgun. Hver hafa svo önnur viðbrögð stjórnvalda verið við því að við erum hér mögulega á barmi heimsstyrjaldar? Forseti Íslands hefur áréttað samstöðu Íslands með aðildarríkjum NATO og það hefur utanríkisráðherra sömuleiðis gert, reyndar á samfélagsmiðlum á ensku svo það er e.t.v. frekar til alþjóðabrúks, en samt. Katrín Jakobsdóttir. hæstv. forsætisráðherra og formaður VG, hefur látið bíða eftir viðbrögðum sínum líkt og formaður utanríkismálanefndar, flokksbróðir hennar. Það heyrðist ekkert frá forsætisráðherra fyrr en í gærkvöldi þegar fjölmiðlar eltu hana uppi og inntu eftir viðbrögðum og þau voru sú að líklega væri von um diplómatíska lausn fyrir bí.

Herra forseti. Ég lýsi eftir viðbrögðum forsætisráðherra og formanns utanríkismálanefndar við þessari stöðu. Ég styð þau viðbrögð sem fram hafa komið hjá forseta Íslands og hjá utanríkisráðherra. En mér er spurn: Styður hæstv. forsætisráðherra þau viðbrögð?