Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Friðrik Már Sigurðsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að hefja vegferð mína hér í ræðustóli á brýningu hvað varðar verkefnið Störf án staðsetningar. Samantekt Byggðastofnunar frá því í ágúst síðastliðnum dregur fram að 64% landsmanna búa hér á höfuðborgarsvæðinu en þar er hlutfall stöðugilda ríkisins 71%. Hins vegar er hlutfall íbúa á landsbyggðinni 36% og stöðugildin 29%. Þennan mismun þarf að leiðrétta.

Samkvæmt nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar, hvað varðar fjölda, stærð og stærðarhagkvæmni stofnana, störfuðu árið 2021 22.000 manns í um 17.000 stöðugildum hjá ríkinu. Þar er frátalið starfsfólk ráðuneyta og hlutafélaga í eigu ríkisins. Könnun sem beint var til stofnana á höfuðborgarsvæðinu frá í mars 2020 sýndi fram á að mögulegt væri að auglýsa um 890 störf án staðsetningar. Svigrúmið er því sannarlega til staðar. Auglýsingar á Starfatorgi á störfum án staðsetningar eru hins vegar enn of fáar og ekki alltaf augljóst í auglýsingunni að um starf án staðsetningar sé að ræða. Þessu þarf að breyta og betur má ef duga skal, sérstaklega ef breyta á stöðunni með jafnræði íbúa landsins hvað varðar aðgengi að opinberum störfum í forgrunni. Nauðsynlegt er að fjármagn fylgi góðum hug. Þá er ég vísa til þess að borið hefur á skorti á fjárheimildum til greiðslu fyrir starfsaðstöðu og hamlar það stofnunum hvað varðar flutning verkefna til landsbyggðarinnar. Brýnt er að leiðrétta þetta. Reynslan sýnir að staðsetning opinberra starfa og stofnana er ekki einungis byggðaaðgerð heldur góð ráðstöfun á fjármagni. Starfsmannavelta er lítil (Forseti hringir.) og vel helst í sérhæfingu og sérþekkingu starfsmanna.