152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Herra forseti. Mig langar að eiga óvinsælt en samt sem áður nauðsynlegt samtal. Samtalið um hatursorðræðu þarf að eiga sér stað undir réttum formerkjum. Það er algeng mýta að styrking löggjafar í kringum hatursorðræðu sé aðför að tjáningarfrelsi. Það er ekki raunin. Það eru til lög um hatursorðræðu en þau virka varla í framkvæmd. Hatursorðræða undir formerkjum tjáningarfrelsis hefur margvísleg kælingaráhrif á viðkvæma hópa. Þeir óttast að tjá sig og þannig vegur hatursorðræða að tjáningarfrelsi þeirra. Þeir óttast að sækjast eftir opinberum störfum og vegur hún þannig að athafnafrelsi þeirra. Þeir óttast að verða fyrir árásum og vegur hatursorðræða þannig að frelsi þeirra til heilbrigðs lífs. Það er ekki annað að sjá en að vilji löggjafans sé að taka á slíkri hatursorðræðu en lögin sem Alþingi hefur sett í þessum efnum, til að standa vörð um frelsi þessara viðkvæmu hópa, eru gölluð. Það heyrir til algerra undantekninga að brot á lögunum leiði til sakfellingar. Er það vilji löggjafans að setja lög sem þolendur hatursorðræðu geta ekki treyst á þegar á reynir?

Það sem ég vil vita er: Hvað er að klikka í þessari löggjöf? Er það vegna þess að við, löggjafinn, erum ekki nógu dugleg að styrkja löggjöfina í takt við tíðarandann, í takt við tæknibreytingar og skilgreiningar? Er þetta út af því hvernig löggjöfin hefur þróast í framkvæmd?

Forseti. Ég vil ítreka að það að bæta lög sem eru nú þegar til staðar, gegn hatursorðræðu, og standast stjórnarskrá er ekki aðför að tjáningarfrelsi fólks. Það er okkar hlutverk að tryggja að lög séu til staðar sem ná utan um hatur og aðför gegn viðkvæmustu hópum samfélagsins.