152. löggjafarþing — 41. fundur,  24. feb. 2022.

fyrirhuguð rafvopnavæðing lögreglunnar.

[10:52]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það vekur athygli að í fréttatilkynningu frá Landssambandi lögreglumanna segir að rafbyssur nýtist ekki þegar árásaraðilar séu vopnaðir skotvopni. Rafbyssurnar séu því aðeins ætlaðir þeim sem séu vopnaðir návígisvopnum á borð við hnífa eða jafnvel óvopnaðir. Ef einstaklingur ætlar raunverulega að vinna lögreglumanni skaða, myndi hann þá ekki einfaldlega vopna sig með hættulegra vopni á borð við skotvopn vitandi það að lögreglumenn verði vopnaðir rafbyssu? Hvernig ætlar ráðherra að koma í veg fyrir vopnakapphlaup, sem mun óumflýjanlega eiga sér stað ef hann fyrirskipar almenna upptöku rafbyssa?