152. löggjafarþing — 41. fundur,  24. feb. 2022.

fyrirhuguð rafvopnavæðing lögreglunnar.

[10:53]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Þó að tilfellum þar sem skotvopn koma við sögu, t.d. í verkefnum sérsveitar lögreglu og reyndar almennrar lögreglu líka, hafi fjölgað sem raun ber vitni þá teljum við ekki ástæðu til þess enn sem komið er. Það er, held ég, alveg samdóma álit allra sem ég hef rætt við um þessi mál að það sé ekki tímabært að vopna almenna lögreglu með skotvopnum. Það hefur aftur á móti verið aukin áhersla á þjálfun allra lögreglumanna í notkun skotvopna. Á síðustu sex eða sjö árum hefur orðið gjörbylting í þeim efnum. Það er aðgangur að skotvopnum í lögreglubifreiðum sem þarfnast sérstakrar heimildar til notkunar ef svo ber undir. Við erum að ræða hér eitthvert millistig, eitthvað sem getur tryggt lögreglu í starfi, tryggt öryggi lögreglumanna sem hafa lýst ótta sínum við þær breyttu aðstæður sem eru, og þar með verkefni þeirra sem er grundvallarverkefnið, að gæta öryggis borgaranna í þessu landi.