152. löggjafarþing — 41. fundur,  24. feb. 2022.

innrás Rússa í Úkraínu.

[11:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir það með hv. þingmanni að þetta er mikill sorgardagur og atburðir næturinnar boðberi einhvers sem ég held að við höfum öll leyft okkur að vona að við þyrftum ekki að upplifa, og fyrst og fremst að óbreyttir borgarar í Úkraínu þyrftu ekki að upplifa. Hvað dugir til? Ef ég bara vissi það þá myndi ég segja það upphátt. Ég vona að Evrópusambandið, Bandaríkin, Bretar, Japanir og aðrir sem hafa tilkynnt um efnahagslegar þvinganir séu tilbúnir að ganga lengra. Ég veit að Evrópusambandið ræðir í dag um næsta stóra skref sem yrði þá stigið af miklum þunga, og þessar allsherjarefnahagslegu þvinganir. Við höfum sagt það skýrt, íslensk stjórnvöld, að við stöndum áfram með þeim í því. Fórnarkostnaðurinn við að gera það sem við getum til að verja frelsið án þess að fara í beinhörð átök — við erum að sjálfsögðu tilbúin að bera hann.

Það sem skiptir máli hér er að við stöndum saman, að við segjum hátt og skýrt í hvaða liði við erum, hvar við staðsetjum okkur og gerum það sem við getum þar sem við getum það. Við erum herlaus þjóð. Við höfum skyldum að gegna, við höfum táknrænum skyldum að gegna. Við erum hér með svæði, viðbúnað, stuðning, þjónustu, samninga, sem skiptir máli og mér finnst gott að finna fyrir því að ríkin í kringum okkur vita það, bera virðingu fyrir því og við erum fullir þátttakendur í því og við höfum svo sannarlega hlutverki að gegna.

Ég verð að nýta þetta tækifæri til að þakka fyrir þá þverpólitísku samstöðu sem hingað til hefur verið í utanríkismálanefnd sem mér finnst mjög mikill sómi að. (Forseti hringir.) Mér finnst mjög mikill sómi að því að það sé alveg skýrt hvar við stöndum þegar kemur að þessum alvarlegu atburðum, líklega einum alvarlegasta atburði frá síðari heimsstyrjöld, sem við horfum fram á í dag.