152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:34]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er ekki bara spurning um að ráðherra fái heimild til að vísa fólki á götuna í Grikklandi, sem er sannarlega ein af ástæðum þessa frumvarps, heldur að vísa þeim á götuna á Íslandi. Kærunefnd útlendingamála staðfesti hér í fyrra að það hefði verið ólögmætt af hálfu Útlendingastofnunar að vísa fólki út á götu fyrir það að neita að gangast undir líkamsrannsókn, enda er þetta tvennt algerlega óskylt og augljóst hverjum sem vill átta sig á því að það er algerlega kolólöglegt. Og jafnvel þótt það væri löglegt má spyrja sig hvort það væri í samræmi við mannréttindasamninga. En hvaða fólk er þetta sem ráðherra er að tala um? Hæstv. dómsmálaráðherra talar um flóttafólk, sem er ekki að koma frá Úkraínu eða er ekki úkraínskir ríkisborgarar, sem óheiðarlegt fólk eða eitthvað slíkt. Þorri þess fólks sem þær aðgerðir beinast gegn sem dómsmálaráðherra boðar er flóttafólk. Þetta er fólk sem er með viðurkennda stöðu flóttamanns. (Forseti hringir.) Þetta er fólk sem Evrópa er búin að staðfesta, búin að veita skilning og segja: Þú ert flóttamaður. Það leitar (Forseti hringir.) hingað vegna þess að það á sér ekki nokkra lífsvon í þeim löndum þar sem það hefur verið kyrrsett (Forseti hringir.) af hálfu Evrópusambandsins. Þetta er flóttafólk. Þetta er allt flóttafólk. Það skiptir ekki máli hvernig það er á litinn.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími um fundarstjórn forseta er aðeins ein mínúta. )