152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

kosningar að hausti.

[16:18]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að hefja máls á þessu máli sem er tímasetning kosninga, bæði almenn og sértæk. Í III. kafla stjórnarskrárinnar, sem fjallar um skipan Alþingis og alþingiskosningar, segir í 31. gr. að þingmenn séu kosnir til fjögurra ára. Því verð ég að segja það að ég er algjörlega ósammála þeirri túlkun þingmannsins að sú ákvörðun að láta kjörtímabilið vera fjögur ár, eins og kveðið er á um í stjórnarskrá, sé geðþóttaákvörðun. Það hreinlega stenst enga skoðun og sú ákvörðun að kjósa síðastliðið haust fjallaði bara hreinlega um það að kjörtímabilið væri fjögur ár.

Hins vegar höfum við þá heimild sem hv. þingmaður nefndi að það er hægt að stytta kjörtímabilið með þingrofi og færa þá kjördaginn til vors. Þá kem ég að spurningu hv. þingmanns sem hann lauk máli sínu á sem var: Hver er besti tíminn til að kjósa? Í því eru engin náttúrulögmál. Við vitum það sem höfum gengið í gegnum kosningar að vori og kosningar að hausti að kosningar að vori eiga rætur að rekja til ákveðins samfélags eins og þá var við lýði, nánast byggir á tímaspani bænda í sveitum landsins, og í raun og veru er það bara okkar ákvörðun á 21. öld að ræða það hér hvaða tími sé heppilegur. Við vitum að veðrið er ekkert endilega betra að vori en hausti. Þó að hér hafi verið spár um lægðir var ágætasta veður í aðdraganda síðustu kosninga. Ég ferðaðist um land allt og lenti aldrei í nokkrum einustu vandræðum þá. Það var ekkert sjálfgefið og það hefði ekki verið sjálfgefið þótt kosningar hefðu verið að vori. Við getum alveg fallist á að það eru engar utanaðkomandi orsakir í náttúrunni sem kalla á það að við kjósum að vori fremur en hausti. Hvoru tveggja hefur sína galla og kosti hvað það varðar.

Þá kem ég að því sem hv. þingmaður nefndi um fjárlög og fjárlagavinnu. Það finnst mér vera eitthvað sem við eigum að ræða hér á þinginu og það er ágætt að við ræðum það einmitt þegar kosningar eru ekki alveg handan við hornið. Hvað getum við gert betur þannig að það sé í raun og veru hægt að kjósa hvenær árs sem er algerlega óháð fjárlagavinnu? Það ætti að vera mun einfaldara eftir að við höfum tekið upp það fyrirkomulag að vera með fjármálaáætlun, fjármálastefnu og svokölluð rammafjárlög. Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að þingmenn sem eru kosnir til nýs þings eru að einhverju leyti settir í erfiða stöðu með að fá allar upplýsingar um fjárlagavinnuna að hausti — sem var mun síðar getum við sagt þetta haustið vegna þeirra málavaxta sem urðu í Norðvesturkjördæmi og þeirrar rannsóknar sem þingið stóð fyrir varðandi talningu atkvæða þar. Þannig að það var kannski að einhverju leyti óeðlileg staða sem ég vona svo sannarlega að endurtaki sig ekki.

Ég velti því fyrir mér að hugsanlega væri hægt að breyta vinnulaginu þannig að þingmenn á fráfarandi þingi hefðu auknar upplýsingar. Þeir eru auðvitað að ræða fjármálaáætlun að vori og ef við gefum okkur það að kosningar séu að hausti — sem ég er ekkert endilega að segja að sé besta hugmyndin, ég segi hins vegar að það er ekkert síðra en að kjósa að vori — þá getum við velt því fyrir okkur þegar kemur að umfjöllun um fjármálaáætlun til tiltekins tíma hvernig við getum bætt vinnulagið þannig að þingmenn sem eru á þingi sem er að fara frá í kosningum hafi sem gleggstar upplýsingar fyrir þá fjárlagavinnu sem blasir við að hausti. Þar er ég ekki í nokkrum vafa um að við getum gert betur en við höfum gert, enda er ekki mikil reynsla af þessu.

Ég vil nefna það t.d., eins og kom fram hjá hv. þingmanni, að það er kosið að vanda að hausti í Noregi og Svíþjóð, beinlínis alltaf í Noregi því að þar er bara ekki heimilt að kjósa fyrr. Þar er kjörtímabilið fjögur ár hvað sem kemur upp og ekki kosið nema að hausti.

Í Svíþjóð er samkvæmt kosningalögum kjördagur þingkosninga annar sunnudagur í september en ríkisstjórnin getur ákveðið að láta kosningar fara fram fyrr. Finnar eru með sínum kosningalögum með kjördag í apríl. Í Danmörku getur í raun og veru forsætisráðherra boðað til kosninga hvenær sem er á kjörtímabilinu.

Ef við horfum t.d. á Noreg er kosið annan mánudag í september en frumvarp til fjárlaga er lagt fram í þinginu í annarri viku októbermánaðar og afgreitt síðari hluta desember. Þar er haldið mjög fast utan um langtímastefnumótun þó að það verði ríkisstjórnarskipti í kosningum. Það er haldið mjög fast við það þannig að fjárlögin sem eru lögð fram í október byggja algerlega á fjármálaáætluninni sem er samþykkt að vori. Mér (Forseti hringir.) finnst það í sjálfu sér vera það sem við ættum að stefna að þannig að við getum kosið hvort sem er að vori eða hausti en séu kosningar að hausti (Forseti hringir.) séu ákveðnar reglur sem gildi um samspil fjármálaáætlunar og fjárlaga.