152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

kosningar að hausti.

[16:23]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er alltaf svolítið skemmtilegt þegar Alþingi ræðir um sjálft sig og hvernig sé best að hafa hlutina. En að öllu gríni slepptu þá held ég að þetta sé mjög þörf umræða og gott að taka hana einmitt núna á þessari stundu í upphafi þessa kjörtímabils. Þetta þarf að vera þannig að það sé ekki geðþóttaákvörðun eða nokkur hætta á henni í ferlinu. Ég get alveg standandi hér, alls ekki þá að tala um stefnu Samfylkingarinnar í málinu, sagt að reynsla mín segir mér að kannski sé betra að hafa hlutina fastari í forminu. Kannski ættum við að íhuga að hafa þingkosningar á fjögurra ára fresti, þingmenn eru kosnir til fjögurra ára, og hafa það fast eins og Norðmenn gera og láta svo Alþingi Íslendinga og þingræðið eiga við það ef t.d. ríkisstjórn missir meiri hlutann sinn eða það þarf að koma á minnihlutastjórn. Það kann alveg að vera bæði þingræðislega og lýðræðislega góð aðferð til að starfa. Þá erum við ekki í þessari stöðu sem við höfum fundið okkur í á undanförnum árum. Það er alveg ljóst að haustkosningar eins og þær hafa verið hér síðustu tvö skipti henta ekki tempóinu í fjárlagagerðinni og við erum ekki stödd þar að fjármálastefna sé þannig plagg að hún haldist óbreytt með ríkisstjórnarskiptum. Það er bara ekki þannig á Íslandi. Það verður þá að vera þannig að ríkisstjórnin sem tekur við, hver sem hún er, beri ábyrgð á fjárlagafrumvarpinu. Að því leyti til er tímasetningin að vori miklu betri og í betri takt við stjórnsýsluna og starfsemi fjármálaráðuneytisins og það veitir líka styrkara pólitískt umboð til að vinna fjárlagafrumvarp í samræmi við fjármálastefnu. Ég held því að við ættum að nýta þetta tækifæri (Forseti hringir.) til að hugsa þessi mál í „grund og bund“, svo ég fái að sletta, og jafnvel (Forseti hringir.) að hugsa um að breyta algerlega nálgun okkar á það hvernig við stöndum að þessu hér.