Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

kosningar að hausti.

[16:30]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, fyrir þessa umræðu og sömuleiðis hæstv. forsætisráðherra fyrir svör hennar. Ég fagna því að tekin sé umræða um það hvað þurfi að gera varðandi næstu alþingiskosningar. Það er mikilvægt að verklag þingsins næstu ára sé skýrt í kjölfar kosninga og því er gott að byrja þá umræðu snemma. En þegar við ræðum alþingiskosningar, eins og kemur fram hérna, þá hefur umræðan almennt verið um hvort þær eigi að vera að hausti eða vori. Það er hægt að skeggræða þá tímasetningu nær endalaust því að öllum tímasetningum fylgja kostir og gallar. Eins og kom fram áðan skal hvert kjörtímabil vera fjögur ár og í því ferli er eðlilegast að næstu alþingiskosningar séu að hausti, rétt eins og var síðast. Ef færa á kosningarnar aftur fram á vor þurfa greinargóð rök að fylgja þeirri ákvörðun og vel má vera að þau komi fram.

Vert er að minnast á að ríkisstjórnin er kjörin til fjögurra ára í senn og kjósendur treysta henni fyrir góðri vinnu allan þann tíma. En við þekkjum öll til þess að það geta komið upp atvik sem leiða til þess að kosningar eru haldnar fyrr, en við ákveðum það ekki fyrr en ástæða er til þess. Enn hefur ekki komið nægilega gild ástæða til að stytta löglegt núverandi tímabil. Þangað til annað kemur ljós munum við stefna að því að halda kosningarnar í samræmi við kosningalög og þetta kjörtímabil verði því fjögur ár. Þar af leiðandi getur stjórnsýslan skipulagt starf sitt í samræmi við það.