Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

kosningar að hausti.

[16:31]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Þetta er áhugaverð umræða. Hún er náttúrlega ekki ný af nálinni og við erum svo sem ekkert að færast nær einhverri lausn ef ég skil þessa umræðu hér rétt. Við erum vön því að halda þingkosningar á vorin og frá lýðveldisstofnun hafa þar verið sex undantekningar. Helmingur þessara undantekninga í síðustu þremur kosningum; forsætisráðherra sagði af sér, ríkisstjórn féll og síðan sat ríkisstjórn heilt kjörtímabil en ákvað að fylgja þessari nýju þróun. Hinar þrjár haustkosningarnar, 1949, 1959, 1979, ákváðu næstu ríkisstjórnir á eftir að hverfa ekki frá hefðbundnu fyrirkomulagi um vorkosningar og styttu kjörtímabil sitt sem því nam í þrjú og hálft ár í stað fjögurra. Þrjár og þrjár. Þessi venja um vorkosningar var ekki til komin að ástæðulausu og sú sterkasta, eins og hefur verið rætt hér, er sú að fjárlög hvers árs gilda út desember. Við fundum það 2016 og 2017 að fjárlög voru unnin með miklu hraði. Það leiddi til óvissu. Þetta er óþægilegt og eykur líkurnar á mistökum. Næsta ár af dýrmætu kjörtímabili fer svo gjarnan í að leiðrétta mistök sem gerð voru eða vinna upp einhver verk sem hefði átt að vinna og voru ekki unnin.

Hæstv. forsætisráðherra sagði fyrir kosningar nú í haust að hún teldi tímann frá septemberlokum til áramóta vera nægan fyrir vandaða fjárlagavinnu. Það má vel vera en það er alveg ljóst að tíminn frá nóvemberlokum til áramóta var ekki nægur fyrir vandaða fjárlagavinnu, þannig að þetta er snúið.

Mig langar að bæta inn í umræðuna líka galla við haustkosningar. Það er alveg rétt að þingmenn, og það er ekki ríkisstjórnin ein, eru kosnir til fjögurra ára og það skiptir líka máli. Þeir fá umboð kjósenda í fjögur ár. En með haustkosningum á stór hluti þingmanna, þeir sem ekki eru ráðherrar, mjög erfitt með að sinna (Forseti hringir.) störfum sínum vegna þess að það er ekki hefðbundið þing og það getur varað svo mánuðum skipti (Forseti hringir.) fyrir kosningar. Það er mikill galli og setur okkur þingmönnum skorður að sinna verkefnum okkar. (Gripið fram í: Heyr, heyr)