152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

kosningar að hausti.

[16:36]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil sömuleiðis byrja á því að þakka upphafsmanni fyrir umræðuna. Hún var sannarlega farin af stað fyrr í vetur vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að hafa kosningar fjórum árum eftir hinar fyrri. Ég segi ákvörðun ríkisstjórnarinnar og mótmæli þar með kannski á einhvern hátt orðum hæstv. forsætisráðherra hér áðan um að þetta sé einfaldlega vegna þess að kjörtímabilið sé fjögur ár og tek þá undir með hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson hér rétt áðan líka; ef það á að færa rök fyrir einhverri hefð þá er það alveg ljóst að það eru kosningar að vori en ekki bara kosningar fjórum árum síðar. Þá talaði ríkisstjórnin sömuleiðis um það, þegar þessi ákvörðun var tekin að hafa kosningar að hausti að nýju, að það var ekki vegna þess að það væri óhjákvæmilegt heldur vegna þess að það hentaði ríkisstjórninni betur að sitja lengur.

Mig langar örstutt að nefna þætti sem ég tel jákvæða við það að kjósa að hausti. Nú byrjaði ég snemma að hafa stjórnmálaafskipti í ungliðastarfi og þá var þetta oft svolítið vont því að í námi er vorið gríðarlega mikill álagstími. Ungt fólk er í prófum og það takmarkar möguleika ungs fólks til að taka þátt í kosningum og kosningabaráttu og gegna sínu lýðræðislega hlutverki sem ég tel mjög slæmt. Það er hins vegar alveg ljóst, eins og komið hefur fram í máli allra sem hér hafa talað, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra, að til þess að hugmyndin um kosningar á hausti geti gengið upp þarf að gera grundvallarbreytingar, ekki eingöngu á okkar lögum, okkar kerfi við afgreiðslu fjárlaga, heldur hreinlega á okkar þingmenningu. (Forseti hringir.) Ég held að við ættum að skoða þetta mál frá réttum enda og kannski byrja þar áður en við tökum ákvörðun um að færa kosningar á haustið.