Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

kosningar að hausti.

[16:40]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Við störfum í umboði almennings og í þágu almennings. Það er ekki í þágu almennings að kjósa að hausti, ég leyfi mér að fullyrða það hér. En það er klárlega í þágu sitjandi ríkisstjórnar að kjósa að hausti, senda Alþingi heim snemmsumars og hefjast handa við að útdeila fjármunum og stórkostlegum loforðum um útgjöld á kostnað almennings, útgjöld sem eiga að vera til umfjöllunar í þingsal. Þetta gerði ríkisstjórnin í aðdraganda kosninga þar sem lofað var hinu og þessu, lofað var nýjum geðdeildum, lofað var skýli yfir þyrlur, lofað var nemendabúðum á Flateyri o.s.frv. Við horfðum á þetta í aðdraganda haustkosninga og Alþingi var sent heim í frí á meðan ráðherrarnir léku lausum hala. Það er ekki bara fjárlagavinnan sem kemst í uppnám við það að kosið sé að hausti heldur virðist sem haustkosningar henti ekki vinnu við önnur þingmál og henti alls ekki fyrir ráðherra sem eru að reyna að fóta sig í nýjum embættum því að samkvæmt uppfærðri þingmálaskrá forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar áttu 97 stjórnarmál að vera komin hingað inn í sal 1. mars, 97 þingsályktunartillögur og frumvörp, en þau eru 17. Þetta er bara staðan. Það er auðvitað rosalegt að fylgjast með málunum koma inn þar sem við erum hér dag eftir dag, þá loksins ríkisstjórnin kom sér saman um að hefja þingstörf, að fjalla eingöngu um þingmannamál og svo send heim af því að það eru engin stjórnarmál.