152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

kosningar að hausti.

[16:43]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við eitt mikilvægasta málið í stjórnskipan okkar, kosningarnar sjálfar, grundvöllinn að lýðræðinu, og það er ótrúlegt hvað sú umræða snýst mikið um einhverja framkvæmd hér inni á þinginu. Það er eitthvað sem við getum bara skipulagt og komið okkur saman um hvernig við gerum það best og við erum til þess kosin. Við eigum að gera það. Þessi umræða snýst um lýðræði og það er númer eitt, tvö og þrjú. Ástæðan fyrir því að kosið er að hausti er kannski sú hvernig lögin eru og við vorum að framfylgja þeim og lýðræðinu. Það var út af svolitlu sem ákveðið var að boða til kosninga á kjörtímabili og þá kom þessi staða upp. Þá voru kosin að hausti stjórnvöld sem störfuðu í fjögur full ár, nýttu þann tíma sem þau voru kosin til. Við verðum bara að ræða þetta út frá lýðræðinu og svo verðum við sem erum kjörin til að fara með þessi ábyrgðarmiklu störf að fylgja því eftir og finna leiðir til þess og við getum vel gert það. Það var einmitt umræðan um hvað lýðræðið er mikilvægt og kosningar sem tafði það að fjárlagavinnan færi af stað í haust. Við þurfum að ræða þetta, finnst mér, meira út frá því hvernig þessi lýðræðislega skipan okkar er og hvernig framkvæmd kosninganna er en ekki út af framkvæmdaratriðum eins og vinnunni hér inni og hvernig við framfylgjum þessu hér inni. Það er misjafnt, eins og var komið inn á áðan, eftir þjóðþingum og eitthvað sem við getum bara búið til skipulag um og komið okkur saman um. Við eigum að vera vandanum vaxin og geta gert það fyrst við erum að bjóða okkur fram í þetta.