Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

kosningar að hausti.

[16:45]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tel að það skipti ekki rosalega miklu máli hvort kosningar séu að hausti eða vori. Ef við skoðum þá stjórnmálamenningu sem við höfum og skoðum Noreg, sem er búið að minnast hér á, þá er gjörólík stjórnmálamenning þar. Við búum við átakamenningu svokallaða, „adversary“-pólitík, á meðan það eru samvinnustjórnmál þar. Við erum ekkert komin út úr því fari enn þá og markmiðið ætti auðvitað að vera að ná því að vera í meiri samvinnu. Síðustu kosningar á undan voru 28. október 2017 og síðasta ríkisstjórn vildi vera út allt kjörtímabilið nánast og það er ekkert við því að segja.

Varðandi fjárlög þá á að leggja fram fjárlagafrumvarp fyrir næsta almanaksár á eftir og ég er í fjárlaganefnd og ég veit ekki betur en að sú vinna geti náð fram í janúar. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það. Fjárlögin eru þess eðlis að rekstur ríkisins er í mjög föstum skorðum og embættismennirnir sem vinna fjárlögin. Pólitíkin í fjárlögunum, jú, jú, hún er til staðar, en ég geri ráð fyrir því að síðasta ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn hafi haft tilbúin fjárlög til að móta sína stefnu af því að þau ætluðu að vinna saman ef þau héldu þingmeirihluta. Það hefði flækt málið ef stjórnarmeirihlutinn hefði fallið, þá hefði þurft að koma með stefnubreytingu í þau fjárlög. Núverandi ríkisstjórn hafði átta vikur til þess að koma sér saman um fjárlög og stjórnarsáttmála þannig að það var ekkert því til fyrirstöðu að leggja þau fram á fyrsta fundi eins og gert var. Varðandi það að vinnan hafi komið fram í janúar (Forseti hringir.) þá hef ég heyrt að það séu söguleg fordæmi fyrir því. Þannig að ég vil bara hafa núverandi kerfi eins og verið hefur.