Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

kosningar að hausti.

[16:47]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp aftur til að leyfa mér að vera ósammála því sem kom fram áðan, að það sé ekki mikill munur á færð að vori og hausti. Ég ætla að leyfa mér að draga fram einn kost við það að hafa kosningar að hausti því að ég hef lent í frekar miklum vandræðum vegna færðar í kjördæmi mínu síðustu vikur. Norðausturkjördæmi er gríðarlega stórt og nú fyrir kosningar höfðu frambjóðendur allra flokka ferðast þúsundir kílómetra til að halda fundi, hitta kjósendur og sinna kjördæminu. Kosningabaráttur geta staðið í margar vikur, jafnvel mánuði. Ef kosningar eru að vori má því áætla að frambjóðendur hefji kosningabaráttu sína snemma á nýju ári, rétt eins og við sjáum núna í komandi sveitarstjórnarkosningum. En íslensk veðrátta getur sett stórt strik í reikninginn þegar frambjóðendur þurfa að ferðast langar leiðir til að hitta kjósendur. Síðustu daga höfum við fengið að kynnast því hvað íslensku veðurguðirnir geta verið mislyndir. Aftakaveður hafa valdið því að hús skemmast, vegir lokast, fólk og hlutir fjúka og ekki er hægt að ferðast á milli staða. Kjósendur eiga að geta hitt frambjóðendur kjördæmis síns og geta treyst á að komast á kjörstað. Með það í huga er hæglega hægt að halda því fram að ákveðið öryggi felist í því að hafa kosningar að hausti. Frambjóðendur geta treyst því að það sé fært á milli staða og kjósendur geta treysti því að eiga möguleika á því að hitta frambjóðendur og komast á kjörstað.