Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

kosningar að hausti.

[16:52]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og forseta alveg sérstaklega fyrir að hleypa mér hér í pontu. Meðan ég hlustaði á þessa umræðu þá rifjaðist upp það sem blasti svo illilega við núna í aðdraganda kosninga og í rauninni frá því að þingi var frestað fram að kosningum. Það var þessi freistnivandi sem kemur fram hjá ráðherrum sem leika lausum hala eftir að þingið er farið í frí. Þetta var misslæmt eftir ráðherrum en það var á köflum eins og sumir ráðherrar kæmust varla fram úr á morgnana öðruvísi en að dreifa tugum milljarða eins og úr þyrlu [Hlátur í þingsal.] yfir vini og vandamenn eða hópa sem voru líklegir til að fjölga atkvæðum þess tiltekna ráðherra. Þetta er auðvitað ekki boðlegt. Ég ætla að leyfa mér að segja að þetta er ekki mannlegt eðli sem kemur fram þarna, þetta er bara misnotkun á almannafé. Þegar ríkisstjórnarflokkar fara í skjóli tímasetningar kosninga að ganga um ríkissjóð eins og hann sé þeirra eigin kosningasjóður er það auðvitað ámælisvert.

En vegna umræðunnar, af því að ég fékk að koma í pontu í seinna skiptið, ég þakka hæstv. forseta aftur fyrir, um þessa ríkisstjórn sem nú situr þá er hvaða tími sem er góður fyrir kosningar. Mín vegna mætti kjósa milli jóla og nýárs, fengjum við til þess tækifæri, bara ef við losnum við þessa ríkisstjórn. Það væri til bóta.