Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

kosningar að hausti.

[16:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég vil hafa það alveg skýrt þegar ég segi að það er hægt að kjósa hvenær sem er. Það krefst hins vegar ákveðins aga sem ég hef ekki upplifað að sé til staðar á Íslandi. Miðað við það agaleysi eru vorkosningar eða snemmsumarskosningar, í byrjun júní þess vegna, mjög heppilegar, jafnvel einmitt fjögurra ára fast tímabil kannski til þess að koma aga á ýmislegt annað þannig að tækifærismennskan hlaupi ekki með okkur í gönur eins og hún gerir reglulega. Ég er ekki íhaldssamari en það, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir. Lög um opinber fjármál hjálpa vissulega en aftur er tækifærismennska að fara með okkur eins og ég veit ekki hvað. Það er einfaldlega ekki farið eftir þeim lögum, það er bara staðan, út af sömu tækifærismennsku og alltaf.

Ég spurði í rauninni einfaldrar spurningar: Hvenær er best að hafa kosningar? Og svarið er að það er hægt að hafa þær hvenær sem er, en við þurfum þá líka að velja hvers konar flæði við höfum í því til þess að stjórnsýslan þurfi ekki að vera sveigjanleg, því að sveigjanleiki stjórnsýslunnar er yfirleitt yfirvinna og var gríðarleg yfirvinna unnin til að vinna upp þau fjárlög sem voru unnin í lok síðasta árs. Það er ekkert rosalega heilbrigt heldur.

Mig langar til að klára þessa umræðu á því að spyrja beint: Hvenær verða kosningar næst? Því að ef það er á einhverjum öðrum tíma en seint um vor eða jafnvel snemma sumars þá þurfum við að byrja aðlaganir strax. Þess vegna er spurningin mikilvæg og svarið enn þá mikilvægara.