152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

kosningar að hausti.

[16:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður sem talaði á undan mér talaði um agaleysi. Ég get alveg tekið undir margt af því sem hann sagði en meira bregður mér þó við minnisleysið sem virðist allsráðandi í þessum sal. Það er eins og hv. þingmenn hafi gleymt því að hér var Alþingi sjálft að rannsaka niðurstöður og talningu í einu kjördæmi af sex og tók sér þann tíma sem það þurfti til þess. Það að draga stórtækar ályktanir af því varðandi haustkosningar, sem hv. málshefjandi gerði ekki en ýmsir aðrir þingmenn gerðu, er auðvitað fullkomið rökleysi svo við höldum okkur bæði við minnisleysið og rökleysið sem hér er uppi. Það er líka kúnstugt að heyra þingmenn sem þola ekki að heyra þessa upprifjun á staðreyndum segja að haustkosningar séu gegn almannahagsmunum. Væntanlega eru þær þá gegn almannahagsmunum í Noregi og Svíþjóð þar sem ávallt er kosið að hausti. (Gripið fram í.) Ég get sömuleiðis rifjað upp umræðu um kosningaloforð; kosningarnar 2007, kosningarnar 2009, kosningarnar 2013. Ég var í framboði í öllum þessum kosningum ólíkt flestum sem hér hafa talað. Þær voru að vori og það var vissulega umræða um það að stjórnarflokkar á þeim tíma færu hamförum í kosningaloforðum. Ég held að það sé ágætt að við rifjum aðeins upp söguna (Gripið fram í.) og ræktum minnið sem er mjög mikilvægt að gera þegar við ræðum stjórnmál.

Hins vegar finnst mér umræðan ágæt og mér finnst ágætt að heyra hv. þingmenn ræða það í fúlustu alvöru hvort við eigum að skoða vinnulag við fjármálastefnu, fjármálaáætlun og fjárlagagerð í tengslum við breytta tímasetningu kosninga. Mér finnst áhugavert að heyra hv. þingmenn sem ræða hér að við ættum kannski hreinlega að skipta um fyrirkomulag og horfa til Noregs. Mér finnst áhugaverðar þær hugmyndir sem hér koma fram um að við þyrftum að skoða betur til að mynda hvernig fjárlagagerð er háttað þegar um er að ræða haustkosningar, sem tengist því sem hér var nefnt um langtímastefnumótun (Forseti hringir.) og stjórnmálamenningu. Þetta er umræða sem við ættum að taka áfram. (Gripið fram í.)En ég legg til að við spörum okkur (Forseti hringir.) að draga ályktanir vegna þess að við virðumst sum hver hafa gleymt því sem gerðist í gær. (Gripið fram í: … rökþrot)(Gripið fram í.)

(Forseti (JSkúl): Forseti biður fólk að vera ekki að hrópa fram í fyrir ræðumönnum.)