152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

hegningarlög.

389. mál
[17:18]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hægt að taka undir það með hv. þingmanni að brot af þessu tagi eru með ógeðfelldari brotum sem við er að eiga og full ástæða til að herða refsirammann eins og verið er að gera. Auðvitað eru væntingar til þess að það hafi fælingarmátt og einnig allt það starf sem á sér stað þegar kemur að kynferðisafbrotum almennt. Það á auðvitað við gagnvart börnum sem öðrum. Með aukinni meðvitund er líka verið að stíga ákveðin forvarnaskref og upplýsa börn og aðra og hvetja þau til að stíga fram þegar slík brot eiga sér stað þannig að þau mál komi þá til rannsóknar og þá til ákæru og sakfellingar ef svo ber undir. Það er hluti af því átaki sem við vorum einmitt að ýta úr vör hér í dag.