152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

hegningarlög.

389. mál
[17:21]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hann er að vitna hér til, sem er mjög mikilvægur punktur í þessum málum almennt, þjálfunar rannsakenda í málum af þessu tagi. Við höfum bætt verulegum fjármunum í kynferðisafbrotamálaflokkinn á þessu ári, 200 millj. kr. varanleg fjárveiting. Hluti af því er það átak sem ýtt var úr vör í dag sem er árvekniátak sem nær til barna og yngra fólks sem og til samfélagsins alls. Við teljum að með aukinni vitundarvakningu í samfélaginu sé hægt að nálgast þessi brot og koma kannski í veg fyrir að þau eigi sér stað. Það er alla vega markmiðið með þessu.

Það er alveg ljóst að rannsókn á þessum málum krefst mikillar sérþekkingar og þjálfunar. Það er alveg hárrétt ábending hjá hv. þingmanni. Þú tekur ekki fólk beint úr Lögregluskólanum eða annað fólk af götunni til að rannsaka þessi mál. Einnig tengjast þau oft tölvunotkun og slíku og krefjast að því leyti sérstakrar þekkingar. Það er einmitt markmið mitt að nýta þessa fjármuni til þjálfunar. Það stendur yfir þjálfun á rannsakendahópi hjá lögreglunni og við ætlum að fjölga í þeim hópi og þetta er liður í því. Það fjármagn sem við vorum að fá mun að lokum nýtast til þess að fjölga í hópi rannsakenda og þeirra sem fara með saksókn í þessum erfiðu málum.