152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

hegningarlög.

389. mál
[17:45]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að segja nokkur orð varðandi tiltekinn þátt í þessu frumvarpi sem varðar breytingu á ákvæði um hatursorðræðu. Þessar breytingar eru gerðar til að mæta tilmælum nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám alls kynþáttamisréttis og er það vel. Vandamálið sem ég sé er að þetta er ekki sú breyting sem þarf að gera til að koma skikki á þessi mál í okkar kerfi. Framkvæmd laganna er vandamálið en ekki endilega löggjöfin sjálf. Þetta ákvæði hefur verið í lögum um árabil en þau mál sem hafa verið rannsökuð eða ákært í, hvað þá dæmt í, og varða brot gegn þessu ákvæði, eru teljandi á fingrum annarrar handar. Ég tel ekki að þessi orðalagsbreyting muni bæta réttarstöðu fólks á Íslandi nema framkvæmdin verði bætt. Þar er greinilega mjög mikið verk að vinna og sennilega er vandinn ansi djúpstæður og væri mjög ánægjulegt að sjá einhverjar áætlanir varðandi það.

Mig langar t.d. að benda á umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands við frumvarpið, þegar það kom fram hér áður, varðandi það að þetta ákvæði er þannig að sá sem misgert er við þarf ekki einu sinni að kæra brotið. Það er þannig í hegningarlögum að oft er það skilyrði fyrir rannsókn og ákæru að sá sem brotið er á fari fram á það. Það er ekki varðandi þetta ákvæði. Jafnvel þó að við öll verðum vitni að mikilli hatursorðræðu í samfélaginu, jafnvel á degi hverjum, er mjög lítið um tilkynningar til lögreglu. Það er mjög lítið um að lögregla taki þessi mál upp og ég þekki engin dæmi þess. Í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands kemur fram að hún hafi heimildir fyrir því að lögreglan hafi neitað að taka við ábendingum um brot á þessu ákvæði.

Ég held því að þessi breyting leysi ekki þann vanda sem við stöndum frammi fyrir. Ég hef ekki trú á því að þetta auki réttarvernd fólks gegn hatursorðræðu á meðan framkvæmdin er óbreytt. Það er kannski fyrst og fremst þetta sem ég vildi koma á framfæri og hvetja ráðherra til að setja fram skýra áætlun um að lagfæra framkvæmdina. Mér skilst að framkvæmdin sé að einhverju leyti réttlætt með vísan í eina dóminn sem ég veit um sem fallið hefur um brot að því er varðar kynþátt eða þjóðerni, sem féll, að ég held, árið 2007, þar sem um mjög augljóst brot var að ræða og óumdeilanlegt, og að stuðst sé við þann dóm í túlkun á lagaákvæðinu, sem er kannski vandamál sem þarf að skoða út af fyrir sig. Ég er ekki viss um að þörf sé á aðkomu þingsins hvað það varðar. Ég held að þetta sé verkefni sem bíður stjórnvalda, og fyrst og fremst hæstv. dómsmálaráðherra, að kafa í. Það þarf að kafa í framkvæmdina á þessu lagaákvæði, það þarf að kafa eftir ástæðunum fyrir því að ákvæðinu er ekki beitt þrátt fyrir að við vitum öll að hér þrífst mikil hatursorðræða. Eins og staðan er í dag fer hún oft fram óáreitt.