152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hugur minn er allur hjá Úkraínu eins og er en því miður þá þurfum við að sinna öðrum störfum líka, hvort sem við viljum sinna heimsmálunum eða öðru. Nú er í gangi sala á Íslandsbanka, áframhaldandi sala á Íslandsbanka. Á fundi fjárlaganefndar í morgun voru Gylfi Magnússon, Jón Þór Sturluson og Jón Daníelsson sem minntust á ýmis atriði sem væri vert að skoða og sérstaklega með tilliti til þeirrar spurningar sem ég var með vegna fyrri sölunnar, um það hvað væri eðlilegt fyrirkomulag í svona frumútboði. Það er dálítið mikilvægt að hafa þetta í huga og skilja þetta. Það er eðlilegt að það sé á pínulitlu undirverði þegar verið er að selja. Markmið þess sem er að selja, t.d. eins og Íslandsbanka, er að andvirði eignarinnar aukist í kjölfarið. Það er yfirlýst markmið. Það er viljandi reynt að hafa það þannig. Maður spyr hversu mikið væri eðlilegt, þ.e. áður en maður fer að klóra sér í hausnum yfir því að hækkunin sé orðin of mikil. Ef ég væri t.d. að selja bílinn minn og myndi selja hann á milljón — hann er reyndar alger drusla og myndi aldrei að seljast á því verði — og einhver myndi kaupa hann á milljón og selja hann strax aftur á 1,6 milljónir, myndi ég þá ekki hugsa: Ég klúðraði þessu, ég hefði getað selt bílinn minn á miklu hærra verði? Þannig er þetta nákvæmlega með sölu Íslandsbanka. Hann er kominn í 60% hærra verð heldur en hann var þegar hann var seldur. Umsagnaraðilar sem komu í fjárlaganefnd og fjölluðu um þetta miðuðu við kannski 10% hækkun, þá væru allir ánægðir, bæði kaupendur og seljendur. Ekki 60% hækkun. Þá erum við, ríkissjóður, sameign okkar allra hérna, bókstaflega að gefa þessa eign til annarra.