152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þeim áhrifum sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft á þjóðina og efnahagslíf hennar. Það var því vonarneisti í augum okkar þegar allar takmarkanir í samskiptum voru afnumdar og lífið var að færast í eðlilegt horf. Við vorum bjartsýn á að ráðast á innflutta verðbólgu sem sett hafði framleiðslukostnað upp úr öllu valdi og skaðað afkomu heimila. Á sama tíma og orkuverð hefur hækkað um allan heim og nágrannalöndin okkar berjast við háan orku- og framleiðslukostnað búa Íslendingar við stöðugt orkuverð. Auðvelt er að taka þessari einstöku stöðu Íslands sem sjálfsögðum hlut og veita því litla athygli hve rík við erum af náttúrulegum auðlindum en þegar á hólminn er komið er það fyrst og fremst náttúruauður Íslands sem heldur uppi efnahagslífinu og samfélaginu í heild.

Virðulegur forseti. Blíðan eftir Covid var skammvinn. Það skall á stríð. Afleiðingar Covid-19 og stríðsins í Úkraínu á efnahagslíf heimsins eiga eftir að verða mikilvæg áminning um stöðu okkar, mikilvægi íslensks landbúnaðar og náttúruauðlinda og nauðsyn þess að sjálfbærni Íslands á þessum sviðum sé tryggð. Við sáum það í Covid-faraldrinum að við getum ekki ávallt stólað á aðrar þjóðir með allar okkar þarfir. Fyrirséð er að stríðið í Úkraínu mun hafa gríðarleg áhrif á orkukostnað um allan heim. Hröð orkuskipti hafi aldrei verið mikilvægari en nú. Í ljósi núverandi aðstæðna á heimsmarkaði er það því algjört forgangsatriði að setja orkuskipti í forgang og sjálfbærni Íslands í fyrirrúm.

Virðulegur forseti. Við höfum ekki áður staðið frammi fyrir þeim augljósu kostum að nýta auðlindir okkar til að skapa störf og framleiða verðmæti sem undirstöðu velferðarinnar í landinu eins og nú. Um leið og við stöndum með bandamönnum okkar og styrkjum viðskipti víða um heim hefur aldrei verið mikilvægara að standa vörð um sjálfbærni innlendrar matvæla- og orkuframleiðslu. Sjálfbærni í orku-, matvæla- og fæðuöryggi og yfirráð yfir auðlindum okkar leiðir ávallt af sér sjálfstæði.