152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Eva Dögg Davíðsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í minni allra fyrstu ræðu í þessum ræðustól vakti ég athygli á löngum og ófyrirsjáanlegum biðtíma trans fólks eftir kynleiðréttingaraðgerðum. Þeirri umræðu fylgdi ég eftir með skriflegri fyrirspurn til skriflegs svars til hæstv. heilbrigðisráðherra. Í síðustu viku kom svarið við þeirri fyrirspurn og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir. Þau varpa enn frekara ljósi á vandann en samkvæmt svörum ráðherra er meðalbiðtími þeirra sem voru á biðlista eftir stærri kynleiðréttingaraðgerðum 16 mánuðir. Síðasta spurning fyrirspurnarinnar var á þessa vegu, með leyfi forseta: Stendur til að breyta forgangsröðun kynleiðréttingaraðgerða þar sem ljóst er að þær eru lífsnauðsynlegar þeim sem þær þurfa? Spurningin vísar beint í orðræðu hagsmunasamtaka trans fólks um allan heim sem hafa endurtekið tjáð sig opinberlega um þá djúpstæðu vanlíðan sem ófyrirsjáanlegur biðtími veldur og hættuna á sjálfsskaða og jafnvel sjálfsvígum á þessu viðkvæma tímabili þegar beðið er eftir aðgerð. Í svari ráðherra við þessari spurningu segir, með leyfi forseta: Allar aðgerðir eru taldar nauðsynlegar. Biðlistar Landspítala, þar með talið fyrir aðgerðir sem tengjast kynleiðréttingu, eru háðir sífelldri endurskoðun. Áætlanir eru gerðar um aðgerðir en þar sem Landspítalinn er bráðasjúkrahús getur það skipulag fari úr skorðum vegna bráðra aðgerða sem eðli máls samkvæmt hafa forgang.

Ég viðurkenni að svarið er ekki það sem ég hafði vonast eftir og ég vil nýta þennan vettvang til að undirstrika alvarleika málsins. Við verðum að svara ákalli trans fólks sem skilgreinir kynleiðréttingaraðgerðir sem lífsnauðsynlegar. Orðtakið „ekkert um okkur án okkar“ er oft notað í samhengi hagsmunabaráttu hvers konar. Ákvarðanir sem varða jaðarsettan hóp, eins og raunin er hér, eiga að taka tillit til þeirrar lifuðu reynslu sem sá hópur býr yfir. Mér finnst þetta svar og þessi afstaða ekki hafa það að leiðarljósi. Ég vona enn að því verði breytt og að forgangsröðun kynleiðréttingaraðgerða verði endurskoðuð.