152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi verð ég að tala um hina hörmulegu, tilefnislausu innrás Rússa í Úkraínu. Hugur minn og hjarta er hjá fólkinu í Úkraínu. Það er þungt ský yfir okkur öllum. Ræða mín í þessu efni snýr að öðru.

Tíundi hver 19 ára Íslendingur er hvorki með atvinnu né í námi. Hlutfall erlendra ungmenna hér utan náms og atvinnu er svo enn þá hærra eða um 13,5%. Fréttir af stöðu ungmenna á Íslandi sýna hve alvarleg staðan er. Hlutfall ungmenna sem eru ekki í námi eða starfi hefur hækkað á undanförnum misserum samkvæmt gögnum frá Hagstofunni. Hvað snýr að námi reynast tölurnar einnig frekar sláandi: 31% drengja og 22% stúlkna falla úr framhaldsskóla og meðal innflytjenda er hlutfallið 62%.

Herra forseti. Hvað veldur? Aðstæður á vinnumarkaði eru svo þannig að hátt í 6.400 einstaklingar á atvinnuleysisskrá á síðasta ári höfðu einungis lokið grunnskólanámi eða sambærilegri menntun. Nær þriðjungur þjónustuþega hjá Virk er undir þrítugu og hafa 35% þeirra lokið grunnskólaprófi. Til þess að komast í úrræði hjá Virk þarf fyrst að stíga yfir þann þröskuld að leita til læknis og fá þar beiðni um starfsendurhæfingu, skref sem reynist mörgum óyfirstíganlegt. Stjórnvöldum ber að bregðast við þessu. Allar rannsóknir sýna að því lengur sem fólk er frá vinnumarkaði og fer í minni virkni, þeim mun erfiðara er að fara aftur inn. Ef ekkert er gert í þessum málum stefnir í mikinn kostnað fyrir samfélagið allt og mikinn skaða fyrir einstaklingana sjálfa.

Virðulegur forseti. Framtíðin er undir. Það er ekki nóg að segja bara að unga fólkið sé framtíðin heldur þurfa aðgerðir að fylgja. Nú þarf að stokka upp í menntamálum.