152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Allsherjarhernaðarárás Pútíns og hans fylgjenda í Úkraínu er ógn við frið og stöðugleika í Evrópu allri. Að ráðast inn í frjálst og fullvalda ríki er ógn við heimsmynd okkar og skýrt brot á alþjóðalögum. Hugur okkar er hjá úkraínsku þjóðinni sem má þola hryllilegar og grimmilegar sprengjuárásir frá hersveitum Rússa. Þessar tilhæfulausu árásir Pútíns, sem hafa í för með sér mannfall og tjón meðal almennra borgara og reka gríðarlegan fjölda fólks á flótta, sýna að stjórnvöld í Rússlandi bera enga virðingu fyrir mannslífum og rétti fólks til frelsis og lýðræðis. Rússneski herinn er við það að yfirtaka Kiev, höfuðborg Úkraínu. Trúfesta og seigla úkraínsku þjóðarinnar er aðdáunarverð, en því miður eru allar líkur á því að innan fárra daga eða klukkustunda verði borgin blóðbað eitt. Eina raunhæfa leiðin til að verja Úkraínu er að Pútín einangrist og að stuðningsmenn hans snúi við honum baki. Að hermenn rússneska hersins átti sig á því að þeir eru að berjast við bræður sína og systur, saklaust fólk sem hefur ekkert til þess unnið að þurfa að standa vörð um sjálfstæði þjóðarinnar sinnar, og þess vegna leggi hermennirnir niður vopn sín. Rödd allra sem aðhyllast mannréttindi, frið og að alþjóðalög séu virt og samstaða okkar er eina leiðin til að ná því fram. Ég styð Úkraínu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)