152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Stríð er hryllingur sem kippir grundvellinum undan tilveru fólks. Það deyðir, það eyðir og það limlestir, það hrekur óbreytta borgara á flótta, rústar barnæskunni og öllum draumum um frið og velsæld. Það á við um stríð, hvort sem það er í Afganistan, Jemen, Sýrlandi eða Úkraínu. En nú er stríðið komið heim. Það er á þröskuldi okkar af því að við búum í Evrópu og við skynjum og upplifum það svo miklu sterkar en við gerum með stríðin sem eru í öðrum heimsálfum. Fyrir því er mjög mannleg og skiljanleg ástæða en við skulum samt reyna að skilja að stríð er hryllilegt hvar sem það fer fram.

Innrás Rússlands í Úkraínu markar þáttaskil í sögu Evrópu frá seinni heimsstyrjöld. Það liggur fyrir. Sem betur fer hefur nú náðst samstaða um fordæmalausar viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi, gegn einstaklingum í æðstu stöðum og ólígörkum, því að þeim þarf vissulega ná. Við verðum að spyrja okkur hvort þær dugi af því að Pútín er ekki vinalaus. Heimsveldið Kína er á gula takkanum, eins og þar stendur, þegar kemur að Pútín og þaðan mun hann fá sínar bjargir þegar á reynir.

Efnahagslegar þvinganir verða að bíta og við sem hér búum í frjálsum ríkjum Vestur-Evrópu þurfum líka að gera okkur grein fyrir því að við þurfum að greiða fórnarkostnað af efnahagsaðgerðunum af því að þær munu hafa bein áhrif á kjör okkar; viðskiptakjör, verðbólgu og efnahagsumhverfi. Það er eins gott að við byrjum strax að huga að því og stöndum í lappirnar og verðum ekki stödd þar eftir hálft ár eða svo — vonandi verður stríðinu löngu lokið þá — að við verðum farin að barma okkur yfir því að þurfa að grípa til þessara aðgerða.

Nú þarf að standa í lappirnar. Nú þarf að standa við stóru orðin. (Forseti hringir.) Við þurfum að búa okkur undir að þetta stríð standi lengi og við þurfum að standa gegn því mjög lengi.