152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Herra forseti. Í umræðum í þinginu hef ég skynjað mikilvæga og breiða samstöðu á meðal kjörinna fulltrúa um ótvíræðan stuðning við stjórnvöld í Úkraínu og algjöra höfnun á þeirri óöld sem rússnesk stjórnvöld hafa boðið okkur upp á. Á undanförnum dögum hefur svið alþjóðastjórnmála tekið fordæmalausum breytingum á ógnarhraða. Stríðið í Úkraínu er ekki borgarastyrjöld. Það er utanaðkomandi árás annarrar þjóðar, þjóðar sem svífst einskis, þjóðar sem á landamæri á norðurslóðum sem og að loft- og landhelgi Íslands og hefur gengið svo langt að reyna að gera tilkall til norðurpólsins. Skýr afstaða Íslands í samfélagi frjálsra lýðræðisþjóða hefur aldrei verið mikilvægari en við hljótum að draga þann lærdóm að vera Íslands í NATO er og verður lykilþáttur íslenskrar varnarstefnu sem þarf að viðhafa, hvað sem öðru líður, hjá eyríki á norðurslóðum. Rétt er þó að benda á að mikilvægasti vettvangur þjóðar sem telur sig vilja viðhalda friði umfram allt er Evrópusambandið. Aldrei hefur samstarf Evrópuþjóða sannað gildi sitt gagnvart nágranna sem er ógnað líkt og nú.

Virðulegur forseti. Máltækið „megir þú lifa á áhugaverðum tímum“ hefur því miður raungerst fyrir manneskju sem hefur aðeins lifað friðartíma. Það er þó ekki nóg fyrir ríkisstjórn og þing að sammælast um mikilvægi friðar heldur líka þær leiðir sem við viljum fara til að ná honum og viðhalda honum. Sem frjálslyndur jafnaðarmaður tel ég óraunhæft og óæskilegt að reyna að ná honum með öðrum hætti en innan vébanda evrópskra lýðræðisþjóða innan Evrópusambandsins en því skal haldið til haga að sitjandi ríkisstjórn er að mér vitandi ekki á sama máli.